Heimilið: hvernig þrífum við gler og spegla?

Sjónvarpsþátturinn Heimilið lýkur upp dyrum sínum á Hringbraut í kvöld, en þar innandyra úir og grúir af góðum húsráðum eins og í öllum fyrri þáttunum sem hafa notið vinsælda á dagskrá Hringbrautar í sumar, enda verður framhald á í allan vetur.

Meðal húsráða í þætti kvöldsins er hvernig heimilisfólk þrífur gler og spegla með mestum og bestum árangri og hvernig baunavélinni á eldhúsborðinu er best viðhaldið svo kaffið sé alltaf jafn gott.

Þá mun Ari Skúlason, sérrfræðingur Landsbankans á sviði húsnæðismála fara yfir markaðinn, en sérbýli er að taka kipp ólíkt því sem verið hefur samkvæmt nýjustu tölum bankans. Fasteignasalinn Guðbergur Guðbergsson svarar spurningum viðskiptavina og sýnir nokkrar eignir - og loks mætir fjölskylduráðgjafinn Kári Eyþórsson í lok þáttarins til að fjalla um kúnstina að koma sér úr húsi á morgnana, en hann er fastur gestur þáttanna eins og svo margir aðrir sérfræðingar sem ausa reglulega úr brunni visku sinnar - og reynslu - í þessum upplýsandi fræðsluþáttum um rekstur, viðhald, öryggi og sparnað heimilisins.

Heimilið verður opnað á Hringbraut klukkan 20:00 í kvöld.