Heimili og Matur í forgrunni í nýjum þætti á Hringbraut með Sjöfn Þórðar

Matur og Heimili í umsjón Sjöfn Þórðar hefja göngu sína á Hringbraut næstkomandi mánudag kl. 20.30. Þetta eru lifandi þættir um matargerð og bakstur í bland við innanhússarkitektúr, hönnun og fjölbreyttan lífsstíl

Í þáttunum heimsækir Sjöfn lifandi heimili ólíkra einstaklinga og kynnist heimilisstíl þeirra og fær að heimsækja heimili hönnuð af íslenskum innanhússarkitektum í samráði við húsráðendur. Íslenskri hönnun, list og handverkum verður gert hátt undir höfði.

„Það er ávallt gaman að koma inn á heimili þar sem persónuleiki þeirra sem þar býr skín í gegn og fær að njóta sín til fulls,“ segir Sjöfn og veit fátt meira gefandi að heimsækja fagurkera sem leyfa listrænum hæfileikum sínum að njóta sín á ýmsum sviðum. Á mánudaginn næstkomandi er framundan innlit í stórfenglega loft íbúð við Hverfisgötuna þar sem innanhússarktitektin Sólveig Andrea Jónsdóttir sá um hönnun og framkvæmd í samráði við húsráðendur með glæsilegri útkomu.

Omnom ísgerðin heimsótt í fyrsta þætti

Sjöfn heimsækir jafnframt heimili og eldhús matgæðinga, sælkera- og matarbloggara og fær innsýn í heimili viðkomandi og kynnist mismundandi matreiðslustíl hvers og eins.

„Matur er mannsins megin og það eru orð sönnu, hjarta heimilisins slær oftar en ekki í eldhúsinu og þar verja fjölskyldur oftar en ekki sínu bestu samverustundum,“ segir Sjöfn og nefnir jafnframt að matarupplifun fólks sé hluti af lífsstílnum í dag.

„Fróðlegt er að fylgjast með ólíkum bakstri og matargerð en eitt sem er sammerkt með flestum er að þeir leggja mikið upp úr því að gera kökurnar sínar og matinn fallegan enda borðum við flest öll fyrst með augunum, svo með munninum,“ segir Sjöfn og mun einnig heimsækja fjölbreytta flóru sælkeraverslana, kaffihúsa og veitingastaða. Að auki kynnir hún sér hefðir og siði í matargerð ólíkra menningarheima. Íslensk uppskera og afurðir beint frá býli verða í forgrunni enda er gróskan á þeim markaða óþrjótandi og kemur sífellt á óvart. „Framundan er skemmtilegur og gefandi vetur á skjánum enda kunnum við Íslendingar að njóta þess að fegra heimilin og bjóða uppá sælkerakræsingar að ýmsu tagi þar sem upplifunin gleður hjarta og sál,“ segir Sjöfn að lokum.

Matur og Heimili er á dagskrá Hringbrautar alla mánudaga kl 20.30. Þátturinn er svo birtur á hringbraut.is á þriðjudögum.