Framundan er bolludagurinn, mánudaginn 15.febrúar og við höldum áfram með bolluþemað. Margir hverjir halda í hefðir í tengslum við bolludaginn og eiga sínar uppáhalds uppskriftir sem tengjast þessum degi. Sumir hverjir baka bollur í tilefni dagsins í ýmsum stærðum og gerðum. Það geta verið vatnsdeigsbollur, gerbollur með kaffinu með mismunandi fyllingum og toppaðar með alls konar góðgæti. Og svo eru það fiskibollurnar sem eru vinsælar í tilefni dagsins. Ólöf Ásta Salmannsdóttir annar eigandi sælkeraverzlunarinnar Fiskkompaníisins á Akureyri er ein af þeim sem veit fátt betra að njóta þess að snæða fiskibollur í kvöldmatinn á bolludaginn enda hefur það verið hefð frá því að hún man eftir sér á bernsku árunum á Siglufirði. Við fengum Ólöfu Ástu til að ljóstra sínum matarhefðum á bolludaginn og deila með lesendum uppskrift af sínum uppáhalds fiskibollur og meðlæti.
Ólöf Ásta Salmannsdóttir er mikill matgæðingur og á sælkeraverzlunina Fiskkompaní á Akureyri ásamt eiginmanni sínum. Uppskriftin af fiskibollunum sem þar eru lagaðar eru í grunninn frá móður hennar á Siglufirði.
Mikið dálæti af gerbollunum hans Kobba á Sigló
Heldur þú í hefðir á bolludaginn? „Ekkert endilega í þessum bókstaflegu merkingu. Við flengjum engan ennþá við fyrsta hana gal eins og maður er alinn upp við sem var skemmtilegur siður og er dottinn alveg út en við bökum vatnsdeigsbollur og eldum fiskibollur sem er nokkuð gott.“ Ólöf Ásta segist baka sínar eigin bollur á bolludaginn og líka kaupa. „Ég baka bollur á bolludaginn og hef gert frá því ég man eftir mér, aðallega vatnsdeigsbollur. Ég fylli þær með jarðaberjum og rjóma og geri súkkulaði á toppinn sem er einfalt og gott. Ég kaupi líka allaf gerbollur í bakaríi en höfum við einstaklega mikið dálæti af bollunum hans Kobba í Aðalbakarí á Siglufirði. Það er möst að fá þær alla vega einu sinni á ári og eigum við stóra fjölskyldu þar sem hugsar alltaf til okkar með það og færir okkur bollur.“
Grípur með sér glóðvolgar fiskibollur úr Fisk Kompaní á bolludaginn
Fiskibollur skipa stóran sess í fjölskyldu Ólafar Ástu og eru ávallt á boðstólnum í tilefni dagsins. „Það eru miklar hefðir fyrir fiskibollum í minni fjölskyldu og að sjálfsögðu gerði maður sínar fiskibollur á bolludaginn, en þar sem við eigum fiskverslun núna Fisk Kompaní þá gríp ég með mér glóðvolgar fiskibollur úr búðinni því þær slá alveg mínum heimagerðu bollum við. Þær er brjálæðislega vinsælar og seljum við þær á líka á heimasíðunni okkar Fiskkompaní og einnig eru þær til sölu í Gott og Blessað í Hafnarfirði. En skemmtilegt að segja frá því að ég er alin upp við fiskibollur á bolludaginn og mamma heldur ennþá í þá hefð á Siglufirði og gerir fullt af fiskibollum. Svo systkin mín, makar og barnabörnin þeirra koma saman á bolludaginn heima hjá mömmu og pabba að snæða fiskibollur, meðlæti og skola niður með ískaldri mjólk í tilefni dagsins.
Upprunalega uppskriftin af fiskibollunum
Ertu til í að deila með okkur uppskriftinni af þeim og meðlætinu sem þú berð fram með þeim? „Svo sannarlega, get ég gefið ykkur fjölskyldu uppskriftina sem steinliggur alltaf og einnig höfum tekið hana með okkur í búðina með örlitlu tvisti, en hér orginal uppskriftin hennar mömmu þar klassíska hefðin er í forgrunni.“
Heimalagaðar fiskibollur gleðja bragðlaukana. Ljósmyndir/aðsendar.
Fiskibollurnar frá Sigló
2-3 fiskflök (þorsk eða ýsu eða bland)
1-2 laukar fer eftir stærð
4 msk. hveiti
2 msk. kartöflumjöl
1 tsk. lyftiduft
2 stk. egg
salt, pipar og kjöt & grill krydd eftir smekk.
Brún fiskibollusósa á klassíska mátann
Fiskibollusoðið
sósukraftur eftir smekk
brún sósulitur eftir smekk
2-3 msk maizenamjöl (eða eftir smekk)
örlítið salt
Byrjið á því hakka saman fisk og lauk, síðan er restin sett útí og hrært þar til þetta er orðið að fiskfasi. Bollur gerðar síðan gerðar úr fasinu og steiktar á pönnu. Þegar bollurnar eru tilbúnar eru þær settar í pott með vatni yfir, kraft og sósulit bætt útí og látið malla í um það bil 20-30 mínútur. Bollurnar þá veiddar uppúr og sósan er gerð úr soðinu, pískið maizena og pínu salti saman við. Það eru tilbúnar fiskibollur í brúnni sósu á klassíska og gamla mátann. Fiskibollurnar eru bornar fram með soðnum kartöflum, rabbabarasultu og ískaldri mjólk.
Vinsælustu fiskibollur sem sögur fara af eru frá Fiskkompaníinu á Akureyri og fást líka hjá Gott og blessað í Hafnarfirði.
Fiskkompaní fiskibollurnar með bankabyggi og salati
Fiskkompaní bollurnar eru svo eggjalausar og kryddum við þær aðeins öðruvísi. Mér finnst frábært að henda þeim í eldfast form inn í ofninn í um það bil 20 mínútur á 200°C hita. Með þeim ber ég fram bankabygg, ferskt salat og sinnep. Ofur einfalt, fljótlegt og hrikalega gott, einfaldleikinn er ofast langbestur.
Verði ykkur að góðu.