Á fallegum sólríkum dögum er dásamlegt að byrja daginn á ferskum og hollum morgunverði og/eða hádegisverði og sitja úti á pallinum eða svölunum og njóta. Vinsælt er að fá sér gott grískt jógúrt, skyr eða chiagraut með ferskum ávöxtum og toppa með ljúffengu granóla. Berglind okkar Guðmundsdóttir lífsknúster og köku- og sælkerabloggari hjá Gulur, rauður, grænn & salt á sitt uppáhalds granóla sem hún gerir reglulega. Við fengum hana til að deila með lesendum uppskriftinni og leyfa okkur að njóta með. „Að gera sitt eigið granóla er ótrúlega auðvelt og að sjálfsögðu alltaf miklu betra en það sem við kaupum í búðinni. Það er hægt að leika sér með innihald, taka eitthvað út og bæta í ef maður er með góðan grunn,“ segir Berglind og veit fátt betra en að eiga heimalagað granóla til toppa morgunmatinn og millimál. Þessi uppskrift er auðveld en auk þess er hún vegan og lífræn.
Granóla með hlynsírópi og pekanhnetum
¼ bolli kókosolía bragðlaus frá Rapunzel
½ bolli hlynsíróp frá Rapunzel
¼ bolli hafrahveiti (haframjöl malað í matvinnsluvél)
2 bollar grófvalsaðir hafrar frá Rapunzel
1 bolli blönduð fræ að eigin vali (Berglind notaði sólblóma og sesamfræ frá Rapunzel)
½ bolli pekanhnetur
1 msk. kanill
½ tsk. sjávarsalt
Byrjið á því að hita ofninn í 150°C. Bræðið kókosolíu og hlynsíróp saman í litlum potti. Blandið þurrhráefnum saman í stórri skál, hafrahveitinu, haframjölinu, fræjunum, hnetum og kanil. Hellið síðan olíu/sírópsblöndunni yfir og blandið saman með sleif. Dreifið blöndunni jafnt á bökunarpappír á ofnplötu og bakið í 45 -50 mínútur og hrærið í tvisvar sinnum á þeim tíma. Takið út úr ofninum og dreifið sjávarsaltinu strax yfir. Leyfið aðeins að kólna og síðan er bara að njóta með því sem ykkur þykir best.
Verði ykkur að góðu.