Heilögu kýrnar í sjávarútvegi

Nú er hafin stærsta loðnuvertíð í áratugi og líkur á að heilarafli geti orðið á bilinu 6-900 þúsund tonn. Því fagna flestir en engir þó meira en stórútgerðirnar sem njóta þess hvalreka að fá að veiða og selja allt þetta magn. Ekki er nóg með að þær fái að veiða loðnuna heldur þurfa þær ekkert að borga fyrir það á þessu ári. Ástæðan fyrir því er sú að loðnuvertíðin fyrir tveimur árum var léleg og „veiðigjöldin“ eru miðuð við afkomu fortíðar.

Talið er að útflutningsverðmæti loðnuvertíðarinnar geti numið allt að 100 milljörðum. Rennur það því óskipt til stórútgerðarinnar að frádregnum beinum kostnaði við veiðar og vinnslu. Íslenska þjóðin, eigandi auðlindarinnar í sjónum, fær ekkert í sinn hlut. Einhverjir brauðmolar hrynja af borðum stórútgerðarinnar með óbeinum hætti en ljóst er að hagnaður við það að fá ókeypis aðgang að loðnunni verður gríðarlegur.

Þetta dregur vel fram hversu óeðlilegt fyrirkomulag gjaldtöku fyrir aflaheimildir er hér á landi. Fyrirkomulagið felur í sér stórfellda eignatilfærslu frá þjóðinni til örfárra sægreifa. Um þetta sturlaða kerfi standa ríkisstjórnarflokkarnir dyggan vörð. Öllum hugmyndum um að beita aðferðum markaðarins til að verðleggja aðgang að dýrmætri auðlind er hafnað. Þess í stað er innheimt gjald til málamynda sem aukinheldur ræðst að verulegu leyti af afkomu stórútgerðarinnar eins og hún er kynnt hér á landi. Sú afkoma segir litla sögu vegna þess að stórútgerðin er með starfsemi í mörgum löndum og hefur svigrúm til að láta afkomuna koma fram þar sem það hentar best út frá sköttum og öðrum fjárhagslegum þáttum, rétt eins og önnur fjölþjóðafyrirtæki á borð við álver og tæknirisa. Hér er ekki verið að væna stórútgerðina um sviksamlegt athæfi. Án efa nýtir hún sér veikleika kerfisins á fullkomlega lögmætan hátt.

Þegar horft er til þess hvað íslensk útgerðarfyrirtæki eru reiðubúin að greiða fyrir aflaheimildir fiskveiðilögsögu annarra ríkja blasir við að hið fáránlega gjafakvótakerfi kostar ríkissjóð Íslands milljarða og milljarðatugi á einni góðri loðnuvertíð. Þá fjármuni mætti til dæmis nota til að ráða heilbrigðisstarfsfólk inn á Landspítalann til að spítalinn ráði við aukið álag vegna viðvarandi Covid-faraldurs, en bágt og viðkvæmt ástand Landspítalans er helsta ástæða þess að við Íslendingar þurfum að búa við mun meiri takmarkanir og skerðingu frelsis en aðrar þjóðir vegna Covid. En það má víst ekki hrófla við gjafakvótanum og sægreifunum, sem virðast vera okkar heilögu kýr.

- Ólafur Arnarson