Heilbrigðisvottorð ekki sakavottorð!

Til að geta orðið forseti Íslands þarf maður að hafa hreint sakavottorð.

Og svo þarf maður líka að hafa náð 35 ára aldri.

Til að ferðalagið geti þróast af yfirlýsingastigi yfir á framkvæmdastig þarf líka 1500 undirskriftir.

En sá fjöldi var miðaður við allt annað samfélag en nú.

Aðeins örfáar kjósandi sálir voru á sveimi um landið árið 1944, einsleitur hópur. Á þeim tíma grínuðust Íslendingar ekki með stuðning við forsetaefni.

Ljóst virðist því að óheppilegt sé að ganga til forsetakosninga í skugga löngu úrelts regluverks.

Og ein spurning sem vaknað hefur er hvort betra væri að fara fram á geðheilbrigðisvottorð en sakavottorð! – a.m.k. ef sumt er skoðað af því sem þegar kemur komið fram meðal  sumra frambjóðenda. Þá á ég ekki við frambjóðendur sem hafa með hreinskilnislegum hætti í áranna rás afhjúpað þöggun og rætt eigin geðvanda opinberlega - öðrum til skilnings og hjálpar. Ég á við aðra frambjóðendur, suma.

Fimm dögum eftir að Ólafur Ragnar gaf út að hann myndi hætta er þegar svo komið að frambjóðendasafnið minnir æ meir á narsissíska hryllingsbúð, þar sem ástæða framboðsins er jafnvel sögð sú að ætla að frelsa heiminn með yfirskilvitlegum hætti. Og okkur sem langaði svo í ekki sjálfhverfan forseta! Okkur sem langaði svo í einhvern sem ekki væri þjakaður af messíasarduld.

Vitaskuld er gott fólk að finna meðal þeirra sem virðast nálægt því að taka forsetaslaginn eða hafa þegar gefið það upp, en hættan er sú ef þessu vindur svona fram að besta fólkinu okkar líði eins og það taki niður fyrir sig að slást í þann hóp sem fyrir er. Kannski áttu sumir hinna minni spámanna sig ekki á að sá eða sú sem býður sig fram til forseta verður á sömu stundu opinber persóna. Sú staða breytir til að mynda þeim siðferðislegu viðmiðum sem flestir fjölmiðlar setja sér. Jón Jónsson hættir í huga fjölmiðlanna að vera bara Jón um leið og hann býður sig fram. Þá fær hann óvægnari umfjöllun en áður. Orðum fylgir ekki bara ábyrgð heldur stundum óafturkræf afhjúpun.

Þeir sem eru að hugsa málið ættu e.t.v. að velta því fyrir sér að Internetið gleymir engu. Hvorki í samtíð né fortíð.

Athygli er ekki alltaf bundin bara við gróða.

Athygli getur líka kallað á kostnað. Og sá kostnaður getur bæði orðið einstaklingsbundinn og samfélagslegur.

En vonandi eygjum við betri tíma.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)