Hefðum stráfallið í óveðrinu án vísinda

Það er aðventa og árið er 1815.

Hnípin þjóð situr í festum í köldu landi. Snauð vísindum og upplýsingu. Reglulega fara tötrum klæddir fátæklingar hennar, ósjálfstæðir með öllu, þó í kirkju til að hlusta á orðið, leita sér skemmtunar, í öllu falli fróunar. Þar hlusta fátæklingarnir á boðun, þar fær almúginn kennivaldið í æð. Ræður presta eru eitt helsta valdatæki samfélagsins til að hafa taumhald á skepnunni, íslenskum almúga. Sumir prestanna predika æðruleysi, undirgefni og kristilegan kærleika milli þess sem þeir svívirða ungar stúlkur og drengi. En fyrst og fremt er valdið hjá Guði. Og prestar eru handhafar þess.

Fyrir 200 árum. Það er liðið að kveldi. Torfkofar samfélagsins standa strjálir um landið, illa lyktandi og heilsuspillandi. Einkalíf hinna fátækustu, öryrkja íslenskrar alþýðu, er ekki neitt. Höfðingjar halda þeim niðri, nýta þá að vild, krefjast þó lotningar vegna eigin góðverka að hýsa þá og fæða. Stór hlutur landsmanna nýfallinn úr sulti vegna hörmunga sem fylgdu eldsumbrotum. En þetta kvöld fyrir tvö hundruð árum kemur annar óboðinn gestur. Austan ægibrandur, fárviðri.

Án viðvörunar brestur á með svo miklum látum að allt fýkur sem fokið getur. Fólk á ferðalögum verður úti. Hestar sturlast, hlaupa fyrir björg. Kindur fennir. Veraldleg verðmæti verða fyrir óbætanlegu hnjaski.

Nokkru síðar eru gerðar útfarir um allt land þar sem þeir sem létust í ofsanum eru bornir til grafar, þeir sem kannski voru svo heppnir að deyja í illviðrinu. Í útfararræðum prestanna má greina gamalkunnan tón. Að vegir guðs og veðurguðanna séu órannsakanlegir. Mestu gildi nú að þakka þó fyrir það sem eftir stendur.

Svo heldur vítahringur fólksins áfram í samfélagi án upplýsingar. Samfélagi trúar á Guð og hans altæku yfirráð, sem útvaldir höfðingjar sjá um að framkvæma. Þetta Ísland er ekki samfélag almúgans. Ekki samfélag vísindanna. Fremur mætti kalla Ísland árið 1815 samfélag andvísindanna, þar sem hlegið var að þeim sem töluðu fyrir nýrri hugsun, vildu brjóta veg mannsandans upp á nýtt. Þeir sem töluðu fyrir vísindahyggju, voru leitandi, umbætandi, gátu jafnvel verið sakaðir um í öllu veðri að vera andsetnir. Að spyrja spurninga um valdið og útdeilingu þess gat líka þýtt stimplun með myrkraöflum. Vont veður var því ekki alltaf einkamál Guðs heldur gat það hreinlega verið afurð Djöfulsins.  Mannskaðaveður gat sætt þeirri túlkun að það hefði verið sent Íslendingum til að aga þjóðina. Á öðrum tímum gat vonda veðrið verið gjald sem þjóðin þurfti að greiða fyrir drauma sína. En allt miðaði að einu. Óbreyttum völdum; óbreyttu ástandi.

Síðan eru liðin 200 ár. Enn situr sama þjóð í landinu en hún hefur nú byggt sér betri hús og dreifist með nýjum hætti. Hið forna laggskipta landbúnaðarsamfélag hefur  nú víðast hvar vikið fyrir borgarasamfélagi. Meginþorri íbúanna dvelur í nokkrum sterkbyggðum þéttbýliskjörnum. Þjóðin hefur brotist til menntunar og upplýsingar. Prestar og sýslumenn eru ekki lengur alfa og ómega alls. Sú tíð er liðin að ekkert þyki merkilegra en hvað prestar hafi að segja í jólaræðunum. Reyndar ekki löngu liðin. 20 árum áður – fyrir daga internetsins, bjuggu prestar enn yfir drjúgum hluta kennivaldsins. Til þess var þá enn vitnað vel og dyggilega í öllum fjölmiðlum t.d. þegar prestarnir vöruðu við neysluhyggju, græðgi eða ósamstöðu þjóðar. Vegir Guðs þóttu þá enn órannsakanlegir og prestar voru heilagir menn. En svo stökkbreyttist upplýsingin og gagnrýnin, almenningur fór að hafa skoðun á útdeilingu fjármuna og verðleikasambandi milli manna, orða og athafna. Internetið breytti öllu. Nú eru prestar bara eins og hvert annað fólk.

Í stað uppgjafarinnar og ófrelsisins varð til upplýsinga- og vísindabylting sem með nýrri tengingu við jörðina frelsaði þjóðina undan eigin oki.

Ólíkt því sem var fyrir 200 árum fyrr kom veðurhvellurinn í fyrradag því engum á óvart þegar hann kom. Á Húsavík kom veðrið nánast á sömu mínútu og spáð hafði verið. Þar varð nákvæmlega eins hvasst og spáð hafði verið.  Enginn þurfti að treysta á Guð og lukkuna, geðþótta almættisins eða gott skap hjá kölska. Allir héldu sig heima í traustbyggðum húsum sem þakka má mennta- og vísindaframförum. Enginn dó, tjón á eignum lágmarkað.

Samt eru sumir enn að rífast út af veðrinu. Rífast yfir því að veðrið hafi ekki orðið enn verra en það varð. Á völdum stöðum. Væru kannski glaðari ef þeir hefðu sjálfir fokið út í buskann?

Kannski eru hinir sömu afkomendur höfðingjanna til forna. Þeirra sem sýta liðna tíma. Þeirra sem halda því fram að heimurinn versnandi fari.

Það sem eftir stendur er að þakkir eiga vísindamennirnir, veðurfræðingarnir, skilið, þeir sem vöruðu okkur við fárviðrinu í vikunni. Þakkir fá einnig Almannavarnir, björgunarsveitarfólkið, löggan, fjölmiðlarnir og þjóðin öll fyrir að hlýða og miðla upplýsingum til ferðamanna.

Við hefðum hreinlega stráfallið í ofsanum án vísindanna. Þannig höfum við þróast til nýrra og betri tíma. Við trúum því flest ekki lengur að vegir Guðs séu órannsakanlegir, látum þá klisju ekki duga okkur sem svar.

Alltaf verður að vera til nægt fé handa vísindum og fræðum. Þau efla og auðga og bjarga stundum mannslífum líkt og í vondu veðri.

Eitthvað verða þeir líka að fá í sinn hlut sem hafa próf til að koma okkur í gröfina.

En eftir því sem lengra dregur frá árinu 1815 læðist að manni sá grunur að hugsa verði áherslur fjárlaga upp á nýtt.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)