Hefði verið betra að skjóta drengina?

Ég man hreinlega ekki eftir því síðan ég hóf störf á netfréttamiðlum að frétt um alvarlegan glæp, bankarán, fengi frá fyrstu stundu einhliða viðbrögð frá lesendum og allt önnur en hefði mátt búast við. Þetta var þegar ég póstaði frétt um bankarán í Reykjavík yfir miðjan dag í desember sl. „Er ránið glæpur miðað við öll þau rán á almenningi sem framin eru innan veggja banka hér á landi hvern einasta dag? Þannig spurði almenningur. Ummælin við fréttina voru nánast öll á þann veg.

Þetta var  þegar ungir menn á villigötum gerðu tilraun til að ræna Landsbankann í Borgartúni. Fyrstu fréttir af málinu brýndu þó alvarleika málsins fyrir þjóðinni og eiginlega alveg magnað hve margir tóku fréttunum með léttúð. Viðskiptavinir voru sagðir í sjokki, talið var að hlaðin byssa hefði verið notuð sem og hnífur. En það var eins og mestöll íslenska þjóðin áttaði sig  strax á því hve mikilvægt það væri fyrir samfélagið ef fréttamenn landsins fjölluðu aðra daga ársins með ástríðu og vandlætingu um öll þau „rán“ sem viðskiptavinir íslenska bankakerfisins verða fyrir af hálfu stjórnenda.  Vegna vaxtanna, gjaldanna og ýmissa íþyngjandi aðgerða sem sliga efnahag landsmanna. Samfélagsleg ábyrgð bankanna virðist í engu samræmi við ofsagróða þeirra. Þeir segja fötluðu fólki upp á sama tíma og þeir græða á tá og fingri eftir því sem fram kom í þingræðu á dögunum. Skerða blákalt þjónustu úti á landi þrátt fyrir linnulausan gróða. Ekki hjálpar til að það voru þessar sömu stofnanir, það voru bankarnir sem hrundu vegna græðgi, lögbrota og spillingar sem aftur leiddi til þess að hálf íslenska þjóðin lifði um skeið við hungurmörk. Margir hafa enn ekki náð sér á strik. Þetta varð maður var við um leið og fyrstu fréttum af bankaráninu í Borgartúni var póstað. Þjóðin greip tækifærið sem hún fékk til að segja meiningu sína. Og þjóðin ályktaði sem svo að samfélaginu stafaði ekki mesta ógnin af þessum bankaræningjum. Jafnvel á meðan allt stóð yfir.

Eftir því sem ég skrifaði fleiri fréttir sá ég á viðbrögðum lesenda fréttanna á facebook-síðu Hringbrautar að ungu ræningjarnir áttu mikla samúð í hjörtum landsmanna. Þeir voru Hrói höttur hins almenna manns! Svolítið sláandi reynsla,  súrrealísk reynsla reyndar að upplifa, hve margir tóku strax málstað hinna brotlegu. Það skýrist eflaust af þjóðfélagslegu samhengi, skýrist af þeirri andúð sem þjóðin hefur á íslenska bankakerfinu.

Á sama tíma hefur traust til lögreglu beðið nokkurn hnekki – ekki síst eftir upplausn innan lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.  Komum við þá að því að ólíkt hafast fjölmiðlar að. Í dag birtir Stundin ítarlega úttekt um „Stríðið í löggunni“ eins og það er kallað á forsíðu glænýs tölublaðs. En Mogginn fjallar um það á eigin forsíðu í dag að lögreglumenn sem leituðu bankadrengjanna eftir ránið í Borgartúninu í desember sl. vildu endilega fá að elta þá vopnaðir byssum. Lögreglumenn borgarinnar fóru sumsé fram á heimild hjá yfirmanni til að opna vopnakassa, byssuhólf, í lögreglubíl. Staðgengill yfirlögregluþjóns neitaði beiðninni. Fyrir vikið varð ekkert af því að vopnaðar löggur eltu drengina. Þeir gáfu sig svo fram nokkru síðar með friðsamlegum hætti. Þannig er Ísland flesta daga.

Nú spyr maður sig hvort sá sem neitaði beiðninni um að löggurnar fengju að opna byssukassana sína sé hetja dagsins. En kemur þá að því sem vekur sérstaka furðu.  Lögreglumennirnir sem var synjað um að draga upp skammbyssurnar sínar úr vopnakassnum eru víst mjög ósáttir eftir því sem fram kemur í Mogganum í dag. Ekki verður þó annað sagt út frá sjónarhóli mínum sem borgara og lesanda en að Sigríður Björk lögreglustjóri, sem ver þá ákvörðun í blaðinu að löggumönnum hafi verið neitað um að elta drengina, vopnaðir byssum,  vaxi í áliti með því að standa í lappirnar. Hún segist skilja óánægju undirmanna sinna en heldur því þó ekki fram að yfirmaðurinn hafi gert nein mistök. Það er gott hjá henni. Nær væri að spyrja hvort yfirmaðurinn hefði komið í veg fyrir að mannslíf færu í súginn með því að segja nei við þá sem vildu opna byssuboxin sín á espaðri stundu. Þegar æsingur skapast og adrenalín flæðir um æðar er oft gott að segja nokkrum sinnum nei – áður en maður segir já.

Veltum því aðeins fyrir okkur hvað hefði getað gerst. Löggur, fremur óvanar að beita byssum, hefðu getað lent í þeim aðstæðum að skjóta drengina til bana, þessa sömu drengi og furðu margir líta á sem Hróa hetti samtímans – af því að það skortir traust í þetta samfélag. En hvernig hefði okkur sem þjóð liðið með það ef löggan hefði skotið drengina til bana – skömmu eftir að geðfatlaður maður var drepinn af lögreglu í Árbænum? Þar fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis.

Vonandi rennur aldrei upp sú stund að lögreglumenn skjóti borgara hér um hábjartan dag, kannski vegna þess eins að þeim sýnist sem einhver beini að þeim skotvopni. Slík slys verða nánast á hverjum degi í Bandaríkjunum. Oft kemur í ljós að um engin skotvopn var að ræða í höndum borgaranna, enga ógn. Samt var skotið og drepið. Af því að löggurnar héldu að þær eða aðrir borgarar væru í lífshættu.

Okkur væri nær að sameinast gegn okri bankanna á almenningi en að taka undir vandlætingarraddir þeirra lögreglumanna sem enn eru fúlir út af því að þeir fengu ekki að fara í vopnaðan löggu- og bófaleik. Bófarnir hér á landi, þessir sem dags daglega lenda í útistöðum við kerfið, eru sjaldnast stórhættulegir samfélaginu. Þeir eru hættulegri margir hverjir sem klæða sig í hvítar skyrtur á morgnana, þeir sem eiga dýrustu bindin, sumir þeirra valda samfélaginu langmestu tjóni.

Rannsóknir innan afbrotafræði sýna að aukinn vopnaburður innan lögreglu leiðir að jafnaði til aukins ofbeldis. Tól sem ógna og drepa eru aldrei rétta svarið. Vakning er svarið. Sú vakning verður ekki síst að beinast í enn auknum mæli að þeim sem stýra bankastofnunum og öðrum hluta valda- og atvinnulífsins með siðlausum hætti sem leiðir til stórskaða fyrir almenning.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)