„Ég á litla frænku, hún er 13 ára gömul. Hún er með afar sjaldgæfan taugasjúkdóm og í gegnum árin hef ég fylgst með foreldrum hennar annast hana. Ég sé hversu mikið það reynir á þau að horfa á dóttur sína þjást – á hverjum einasta degi.“
Á þessum orðum hefur Haukur Örn Birgisson bakþanka sína í Fréttablaðinu í dag. Þar lýsir hann því hversu mikið það reyni á foreldra 13 ára gamallar frænku sinnar sem fær ofsafengin köst sem valda lömun og vítiskvölum oft í viku.
Lyfjastofnun bannar foreldrum að flytja olíuna inn
Segir hann foreldra hennar hafa uppgötvað olíu fyrir ekki svo löngu síðan sem slái á verki og köst dóttur þeirra en hana sé ekki hægt að kaupa hér á landi.
„Þessa olíu var ekki hægt að kaupa hér á landi og þurfti þau því að flytja hana inn. Fleira fólk, sem glímdi við mismunandi sjúkdóma, hóf einnig að nota olíuna og hjálpaði hún þeim að líða betur. Hún linaði þjáningar þeirra. Olían inniheldur efnið CBD, sem unnið er úr kannabisplöntunni. Plöntuna þekkja flestir en færri vita að hún býr yfir miklum lækningamætti. Efni plöntunnar sem notað er í olíuna veldur ekki vímu og er ekki ávanabindandi,“ segir Haukur.
Segir hann að þrátt fyrir þetta standi einhverstaðar í einhverri reglugerð að efnist flokkist sem lyf og því hafi Lyfjastofnun bannað foreldrum að flytja olíuna inn til lansins.
„Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga um að heimila almenna sölu á CBD-vörum. Ýmsir hagsmunaaðilar leggjast gegn tillögunni og benda á að rannsaka þurfi betur afleiðingarnar,“ segir Haukur og tekur það fram að viðhorf þetta sé algengt. Það feli í sér að banna hluti áður en þeir eru leyfðir.
„Afleiðingin er hins vegar sú að fjöldi fólks þarf að bíða og líða vítiskvalir á meðan opinberar stofnanir rannsaka hvort olían virkar. Framburður þeirra, sem kveljast áfram, er víst ekki nóg.“