Harðar og háværar umræður áttu sér stað eftir að rithöfundurinn Hallgrímur Helgason benti á að Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar, hefði unnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
„Fyrir aðeins rúmum tveimur mánuðum var Kristín Edwald formaður yfirkjörstjórnar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Rvík og las upp úrslitin í beinni úr Valhöll.
Styttra er svo síðan að við lásum fréttir um setu hennar í "eftirlitsnefnd með starfsháttum lögreglu" sem hafði þá nýfarið yfir starfshætti lögreglu í Ásmundarsal á liðinni Þorkláksmessu,“ segir Hallgrímur á Facebook. „Frétt sem nefndin sendi inn í Morgunblaðið hafði fyrirsögnina „Ámælisverð framkoma lögregluþjóna í Ásmundarsal“. Þar voru birtir bútar úr persónulegu samtali lögreglumanna á vettvangi. Og vitnað í formanninn: "Að mati nefndarinnar komu fram í samtalinu fordómar gagnvart þeim sem afskipti voru höfð af.“ Semsagt fordómar gagnvart Bjarna Ben.“
Hallgrímur hélt áfram: „Nú ætla ég að leyfa mér að hafa smá fordóma um formann Landskjörstjórnar. Hún kann að vera grandvör kona og góður lögfræðingur á stofu sinni Lex en þessi tvö dæmi, um þátt hennar í prófkjöri XD og grímulausa varðstöðu hennar um formanninn BB, sem kom fram í illri meðferð eftirlitsnefndarinnar á óbreyttum lögreglumönnum, segja okkur að hún geti varla verið hlutlaus í starfi sínu sem yfirmaður Alþingiskosninga.“
Hallgrímur fer hörðum orðum um það sem hann kallar spillingu hér á landi: „Svona er Ísland, spillingin er þægileg, kurteis og kósý.“
Hallgrímur segir að í útvarpsviðtali hafi Kristín farið að tala um skiptingu Reykjavíkurkjördæmanna og hafi sagt að það væri hennar að ákveða hvar línan yrði dregin fyrir komandi kosningar:
„Í blálokin plantaði hún svo þeirri hugmynd "sem mikið hefur verið rædd" og "brennur helst á íbúum Reykjavíkur", hvort ekki væri betra að skipta Rvík í austur og vestur frekar en norður og suður. Þarna varð manni hugsað til USA og aðgerða Repúblikana til að endurteikna kjördæmin í von um betri árangur flokksins í kosningum. Það kemur kannski sumum vel að hafa "bláu" úthverfin í einu kjördæmi og "rauða" vesturbæinn í öðru? Það getur varla verið tilviljun að stjórnandi prófkjörs í mest ráðandi flokki landsins sé líka yfirmaður þingkosninga í sama landi?“
Féll í grýttan jarðveg
Innlegg Hallgríms hefur fallið í grýttan jarðveg. Gústaf Níelsson skaut föstum skotum á Hallgrím: „Alltaf skaltu vera sami hallærisgæinn með skítamóralinn á hraðbergi. Hún Kristín er samviskusöm gæðasál, flinkur lögfræðingur, traustur flokksmaður af góðum ættum og ljómandi lagleg að auki. Þú ert alltaf sami pólitíski fjóshaugurinn.“
Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir þetta árás: „Þetta er ótrúleg, lymskuleg og síðbúin árás hjá þér á flokkssystkini þín, þau Ástráð Haraldsson, fyrrverandi formann Landskjörstjórnar, og Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrverandi varaformann. Hvaða innanflokkserjur eru eiginlega í gangi hjá ykkur í Samfylkingunni?“
Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sagði:
„Trúnaðarmenn í stjórnmálaflokkum hafa alltaf verið tilnefndir í kjörstjórnir og formaður ræðst af stjórnarmeirihluta hverju sinni. Mér finnst þetta ekki skynsamlegt innlegg. Þetta - eins og flest annað í lýðræðinu - ræðst af afli atkvæða.“
Hallgrímur svaraði Árna Páli og sagði kerfið galið: „Ekki sist þegar flokkurinn býður svona manneskju með þetta record, konu sem 75% kjósenda treysta alls ekki.“
Árni Páll spurði svo: „Treystu 75% kjósenda Ástráði þegar hann var tilnefndur í þetta? Eða mér þegar ég var kjörinn í yfirkjörstjórn RN 1999 fyrir Samfylkinguna? Þetta er bara ekki sæmandi að ganga að fólki með þessum hætti.“
Ólafur Hauksson, almannatengill, segir Hallgrím tala af vanþekkingu: Þessar vangaveltur eru settar fram af yfirgripsmikilli vanþekkingu á hlutverki landskjörstjórnar. Alþingi kýs landskjörstjórn og í lögum um kosningar til Alþingis er á 53 stöðum tilgreint hvert sé hlutverk landskjörstjórnar og hvernig hún eigi að starfa og taka á álitamálum. Að halda að landskjörstjórn geti hagað sér eftir pólitískum hentugleikum er vægast sagt barnalegt.“
Undir það tók Björn Lárusson: „Ég er formaður yfirkjörstjórnar í Langanesbyggð. Þetta starf hefur ekkert með pólitík að gera. Það er hárrétt hjá þér.“
Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, er sammála Hallgrími:
„Hneyksli, eitt enn.“