Dr. Ólína Þorvarðardóttir hefur átt í miklu basli með að finna sér stóra stöðu í opinbera kerfinu frá því Samfylkingin felldi hana út af lista sínum í Norð-Vestur kjördæmi eftir að hún hafði átt sæti á alþingi fyrir flokkinn.
Reiði Ólínu vegna þess að engin eftirspurn hefur verið eftir starfskröftum hennar kristallast nú í nýrri bók eftir hana sem fjallar um harm hennar sjálfrar sem hún setur í víðara samhengi og dæmir íslenskt samfélag sem allsherjar klíku-og spillingarbæli.
Ólína tekur dæmi um fleiri sem hafa sóst eftir störfum og stöðum en ekki fengið.
Þar fara fremstir Þór Sarii, fyrrum þingmaður Hreyfingarinnar og Bjarni Jónsson, stofnandi Siðmenntar. Hún virðist telja að skortur á eftirspurn eftir starskröftum þeirra tveggja og hennar sjálfrar sé eitt stórt samsæri sem stýrt hafi verið af Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Þorsteini Má Í Samherja.
Það virðist ekki hvarfla að henni að við mannaráðningar ráði fleira en prófgráður. Mannleg samskipti vega þungt og hvernig fólk getur unnið í hópi án þess að til stöðugra átaka komi. Ekki skorti Georg Bjarnfreðarson í Næturvaktinni menntun.
Hann hafði FIMM háskólagráður. En það dugaði honum skammt í mannlegum samskiptum.
Jafnan hefur gustað um Ólínu Þorvarðardóttur. Þegar hún var skólameistari á Ísafirði logaði skólinn í illdeilum þar til henni var ýtt þaðan út. Eftir setu á Alþingi fyrir Samfylkinguna felldu flokksmenn hana í prófkjöri. Þegar hún sóttist eftir stjórnunarstöðu við Háskólann á Akureyri var henni hafnað - og hún kennir útgerðarmanni um það! Margir muna lætin vegna ráðningar þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum en Þingvallanefnd valdi annan til starfsins. Ólína kærði framkvæmdina og uppskar 20 milljónir í bætur án þess að vinna handtak fyrir þjóðgarðinn. Vissulega stóð nefndin klaufalega að verki.
Það breytir ekki hinu að meirihluti stjórnar hafði ekki áhuga á samstarfi við Ólínu.
Gætu verið eðlilegar skýringar á því?
Bók dr. Ólínu minnir helst á Harmsögu ævi minnar eftir Jóhannes Birkiland sem kom út árið 1945 en vegna bókarinnar var hann hafður að háði og spotti því takmarkaður áhugi var á eymd hans.
Eins gæti farið fyrir Ólínu og bók hennar.
Reiðin er vondur verkstjóri og hatrið étur fólk að innan.