Á Seltjarnarnesi þarf fráfarandi bæjarstjórnarmeirihluti að útskýra fyrir kjósendum samfelldan taprekstur síðustu árin. Þetta er ekki auðvelt verkefni í aðdraganda kosninga. Á síðustu sex árum hefur einungis tekist einu sinna að sýna jákvæða afkomu bæjarsjóðs, árið 2016 og þá nam hagnaðurinn 4 milljónum króna.
Hin fimm árin hefur afkoma almenns rekstrar bæjarsjóðs alltaf verið neikvæð: Árið 2017 var tapið 100 milljónir króna, 264 milljónir árið 2018, 95 milljónir árið 2019, mínusinn var 344 milljónir króna árið 2020 og fór svo í hæstu hæðir í fyrra, 2021, en þá var neikvæð afkoma 566 milljónir króna. Samtals er neikvæð afkoma bæjarsjóðs Seltjarnarness því 1.365 milljónir króna árin 2016 til 2021.
Mörgum þykir þessi fjármálastjórn sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi vera óábyrg því að flokkurinn hefur lagt höfuðáherslu á að vera með heldur lægri útsvarsprósentu en önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúar flokksins stæra sig stöðugt af því að vera með aðeins lægra útsvar en nágrannasveitarfélögin.
Í ljósi þessa gífurlega taprekstrar bæjarsjóðs má hins vegar öllum vera ljóst að Seltjarnarnesbær stendur ekki undir því að ákveða eitthvað lægri útsvarsprósentu en t.d. Kópavogur og Hafnarfjörður. Seltjarnarnes hefur einfaldlega ekki efni á því að monta sig með þessum innstæðulausa hætti. Kjósendur hljóta að velta þessum tölum fyrir sér í komandi bæjarstjórnarkosningum og ákveða hvort þeir vilja ábyrga fjármálastjórn eða úrelta montstefnu frjálshyggjumannana í flokknum.
Margt fleira er gagnrýnisvert varðandi stjórnun bæjarins hin síðari ár undir forystu sjálfstæðismanna. Framlög til grunnskólans hafa verið skert, loforð um nýjan og bættan leikskóla hafa ítrekað verið svikin og ekki var einni einustu nýrri lóð til íbúðarbyggingar úthlutað á öllu kjörtímabilinu. Það hlýtur að vera Íslandsmet!
Meirihluta bæjarstjórnar hefur ekki tekist að koma svonefndu Bygggarðasvæði í byggingarferli á þeim fimmtán árum sem verkefnið hefur verið á dagskrá. Vonandi sér fyrir endann á því á næstu misserum og komandi kjörtímabili.
Einkenni stjórnar sjálfstæðismanna á bæjarfélaginu á síðustu öld var örugg fjármálastjórn og framkvæmdahugur. Þettahefur snúist upp í andhverfu sína á seinni árum þannig að mörgum kjósendum þykir nú vera kominn tími til að hvíla flokkinn frá stjórnun bæjarins og gefa öðrum tækifæri á að spreyta sig. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með stjórn bæjarins í 72 ár. Í síðustu kosningum hlaut hann 46 prósent atkvæða og stýrir nú með minnihlutafylgi á bak við sig.Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi á Nesinu.
Þór Sigurgeirsson var sigurvegari prófkjörs flokksins fyrr í vor og leiðir nú lista flokksins. Flokksforystan ætlaði Magnúsi Guðmundssyni, fráfarandi forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs, forystusætið en það fór öðruvísi en ætlað var. Magnúsi var hafnað í prófkjörinu en situr nú í þriðja sæti á lista flokksins. Það sem gerir framboð Sjálfstæðisflokksins á Nesinu að þessu sinni nokkuð snúið er að í baráttusætinu situr öflugur og einlægur Evrópusinni, Svana Helen Björnsdóttir verkfræðingur.
Flokkurinn getur ekki haldið völdum á bæjarfélaginu nema sjálfstæðismönnum takist að tryggja kosningu Evrópusinnans, Svönu Helenar. Hætt er við mörgum íhaldsmanninum og Evrópuandstæðingnum á Seltjarnarnesi muni þykja það erfiður biti að kyngja.
- Ólafur Arnarson