Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra virðist ekki ætla að svara flokksbróður sínum, Haraldi Benediktssyni alþingismanni, vegna kvörtunar hans í kjölfar ótrúlegrar framkomu ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins í síðasta mánuði.
Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri leyfði sér að hringja í Harald seint á föstudagskvöldi og hóta honum málaferlum og eignamissi vegna aðkomu Haraldar að skýrslu Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um afhendingu stóru bankanna til kröfuhafa á síðasta kjörtímabili. Í skýrslunni sem varð til hjá fjárlaganefnd þingsins var því haldið fram að embættismenn og ráðherra hafi brugðist skyldum sínum og ekki gætt hagsmuna þjóðarinnar.
Haraldur Benediktsson á sæti í fjárlaganefnd. Hann var ekki tilbúinn að taka við hótunum frá embættismanni stjórnarráðsins og gerði því framkomu hans opinbera og krafðist þess að fjármálaráðherra léti málið til sín taka. Bjarni virðist ekki hafa gert það. Alla vega hefur ekkert komið fram um það opinberlega að svo hafi verið. Guðmundur Árnason situr sem fastast í ráðuneyti sínu þó margir telji að eðlilegt hefði verið að víkja honum úr starfi, a.m.k. tímabundið á meðan fjármálaráðherra rannsakaði ásakanir Haraldar Benediktssonar.
Það er athyglisvert að fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skuli ekki virða samherja sinn, Harald Benediktsson, meira en það að láta embættismann komast upp með hótanir í garð þingmannsins. Þetta beinir hugsanlega ljósi að því hve valdamiklir embættismenn eru í kerfinu. Þeir eru teknir fram yfir kjörna fulltrúa fólksins sem valdir eru til þingsetu í almennum kosningum. Einnig er vert að hafa í huga að Haraldur Benediktsson leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi og hlýtur að teljast líklegt ráðherraefni flokksins verði hann í næstu ríkisstjórn.
Ráðherrar koma og fara en embættismennirnir sitja sem fastast og enginn virðist þora að hrófla við þeim.
Vonandi býr Guðmundur Árnason ekki yfir neinum óþægilegum upplýsingumum sem varða Bjarna Benediktsson eða aðila á hans vegum. En það er einmitt það sem manni getur dottið í hug þegar við blasir að ráðherra virðist ekki þora að hrófla við embættismanni sem hótar þingmanni með hrokafullum hætti.