Hár styrkur svifryks í dag

Samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg og Njörvasund/Sæbraut hefur styrkur svifryks verið hár í dag. Klukkan 14:00 var klukkutímagildi svifryks við Grensásveg 119,0 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Njörvasund/Sæbraut var klukkutímagildið á sama tíma 106,4 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Til samanburðar var klukkan 14:00 klukkutímagildi svifryks í mælistöð við Egilshöll 33,4 míkrógrömm á rúmmetra og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 13,1 míkrógrömm á rúmmetra.

Um þessar mundir er hægur vindur og kalt, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu. Næstu daga er því búist við svipuðum veðurfarsaðstæðum. Í tilkynningunni er almenningur því hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.

Börn og þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.

Fylgjast má nánar með loftgæðum á loftgæði.is.