Að kenna ríkinu um offitu og mengun

 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson birtir í morgun bloggpistil þar sem hann sakar hið opinbera um að bera ábyrgð á ýmsu því sem talið er í hópi mestu ógna samtímans.

Yfirskrift pistils Hannesar, helsta hugmyndafræðings Sjálfstæðisflokksins sem mikið hafði um einkavæðingu ríkisbankanna að segja fyrir hrun, er „Stóri bróðir, dísilbílar og blóðfita“.

Þar rekur Hannes, sem er stjórnmálaprófessor við HÍ, fyrirlestur sem hann hafi sótt í Búlgaríu á ráðstefnu frjálshyggjustúdenta um mistæk ríkisafskipti. Fyrirlesarinn, Rashev, hafi bent á að dísilbílar nýttu eldsneyti betur en bensínbílar og þess vegna hefði Evrópusambandið stutt framleiðslu þeirra á ýmsan hátt, bæði með beinum styrkjum sem og með ýmsum ívilnunum. „En gallinn er sá, að dísilbílar losa margvísleg önnur efni út í andrúmsloftið og menga það. Afleiðingin er, að loft er ekki eins hreint í borgum Evrópu og til dæmis í Bandaríkjunum og Japan,“ er niðurstaða prófessorsins.

Þá rekur Hannes að upp úr 1960 hafi sú kenning orðið vinsæl, aðallega að frumkvæði bandaríska líffræðingsins Ancels Keys, að hjartasjúkdóma mætti að nokkru leyti rekja til neysluvenja á Vesturlöndum, þar á meðal neyslu kjöts, eggja og smjörs. Þess í stað ætti að neyta grænmetis og kolvetnaríks matar. Bandaríkin hafi sett sér manneldismarkmið í þessa veru, og skyndibitastaðir, veitingahús og matvælaframleiðendur um allan heim breytt samsetningu vöru sinnar. Þessi kenning hefur reynst röng, segir Hannes en framkvæmd hennar hefur valdið miklu um offitu, sem er einn stærsti heilsufarsvandi okkar daga.

Prófessorinn klikkir svo út með eftirfarandi áliti sínu þar sem hið opinbera fær það vægast sagt óþvegið: „Stóri bróðir, hið opinbera, tók báðar kenningarnar upp á sína arma. En hann hafði rangt fyrir sér, og það hefur valdið loftmengun, offitu, verra lífi og fjölda dauðsfalla.“

Geta má þess að í flestum ríkjum veraldar hefur ríkið og hið opinbera leitt umræðu um aðgerðir gegn mengun, offitu og ýmissi óhollustu. Hannes virðist þó telja að ekki sé sú barátta aðeins gagnslítil heldur sé ríkinu að kenna að menn séu feitir og loftið mengað. Sennilega er það þá ríkinu líka að kenna að jöklar eru að bráðna, golfstraumurinn í hættu, ríkinu að kenna að mengandi auðhringir hafi með eitraðri og fullkomlega ósjálfbærri iðnnaðarstarfsemi sinni og framleiðslu litið á Móður jörð sem skækju sem hamast megi á uns auðnin ein sé eftir.

Alltaf skal ríkið til óþurftar í huga Hannesar. Gildir einu þótt hann hafi sagt það sama um rekstur ríkisbankanna fyrir hrun.  Þá taldi hann  bankarekstur á Íslandi betur kominn í höndum einkaaðila en ríkisins. Sagan er kunn. Algjört hrun skall á okkur, hrun sem Íslendingar og fjölmörg erlend fórnarlömb handhafa hins djarfa íslenska einkaframtaks hafa ekki enn bitið úr nálinni úr. Stórfelldar skuldir ríkissjóðs sem rekja má beint til björgunaraðgerða eftir hrun sliga ríkissjóð og hafa gagngert orðið til vegna ósjálfbærrar einkavæðingar bankanna og afleiðinga starfsemi þeirra fyrir okkur borgarana. Kaldhæðni örlaganna er að ein helsta röksemdin núna bak við fyrirhugaða sölu ríkisstjórnarinnar á hlut ríkisins í Landsbankanum er að selja eignarhlutinn til að geta greitt skuldir sem urðu til eftir að ríkið hafði áður selt Landsbankann til einkaframtaksins sem eyðilagði svo Ísland. Sennilega er Hannes enn ráðgjafi Bjarna Ben.

Í ofanálag má ríkisvaldið svo þola að vera kennt um offitu, vonda lýðheilsu, loftmengun.

Bíddu – vegna þess að einhverjum datt í hug að setja grænmeti milli hamborgarasósunnar og brauðsins – er það rökfærslan?

Það er nú samt þetta sama vonda ríki og Hannes níðir í hverju orði sem alla tíð hefur brauðfætt Hannes sjálfan. Hann þiggur laun frá ríkinu til að tala það niður. Hann skrifar sjaldnast um pilsfaldakapítalisma.

Ríkisafskipti eru ekki alfa og ómega alls, til eru góðar ríkisstofnanir og vondar ríkisstofnanir, góðir ríkisstarfsmenn og vondir ríkisstarfsmenn. Saga Hannesar segir okkur allt um það. Ríkinu þarf að veita aðhald með sama hætti og einkaframtakinu þarf að veita aðhald. En með röksemdafærslunni standa menn og falla. Af henni verða þeir metnir.

Pistil Hannesar má lesa hér.