Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur enn á ný frestað útgáfu umdeildrar skýrslu um áhrif erlendra aðila á Hrunið. Nú segist hann ætla að birta skýrsluna þann 16. janúar nk. en þannig hittist á að Davíð Oddsson verður sjötugur daginn eftir.
Hér er væntanlega ekki um tilviljun að ræða. Margir telja að skýrsla Hannesar hafi allan tímann verið hugsuð sem áróðursplagg til að verja misgjörðir Davíðs í aðdraganda Hrunsins sem almennt er talið að hann hafi átt drjúgan þátt í að ýta af stað.
Árið 2015 féllst Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra, á að verja 10 milljónum króna úr ríkissjóði til Hannesar Hólmsteins vegna skýrslu sem ætlað er að sýna fram á að útlendingar hafi komið Hruninu af stað frekar en Davíð. Þykir þessi ráðstöfun á skattfé vera hin mesta hneisa og ekki til þess fallin að bæta veika stöðu Bjarna. Menn skilja hreinlega ekki í honum að hafa fallist á þetta.
Eins og kunnugt er hefur Davíð Oddsson hamast við að reyna að fegra eigin stöðu með skrifum í Morgunblaðið mörg undanfarin ár. Enginn hefur tekið undir með honum nema Hannes Hólmsteinn, unnandi Davíðs númer eitt.
Að Hannes skuli enn á ný fresta útkomu skýrslunnar fram að afmælisdegi Davíðs, þykir benda til þess að henni sé ætlað hlutverk í hátíðarhöldum vegna sjötugsafmælis Davíðs. Skýrslan verður væntanlega tilraun til hvítþvottar vegna umdeildra ákvarðana Davíðs Oddssonar í aðdraganda Hrunsins.
Fastlega er búist við því að Davíð láti af starfi ritstjóra Morgunblaðsins þann 17. janúar. Það hefur verið ófrávíkjanleg regla hjá blaðinu að enginn starfi þar lengur en til sjötugs. Það var ekki einu sinni vikið frá þeirri reglu varðandi Matthías Jóhannessen sem þó var yfirburðamaður á Morgunblaðinu um áratuga skeið.
Þegar Davíð Oddsson tók við ritstjórn Morgunblaðsins voru áskrifendur þess 35,000. Þeir munu nú vera komnir niður fyrir 20 þúsund.
Rtá.