Áhorfendur risu úr sætum í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í gær og hylltu Sögu Garðarsdóttur, Dóra DNA og aðra aðstandendur leiksýningarinnar Þetta er ekkert grín – án djóks, að lokinni frumsýningu.
Verkið er glænýtt en þó er búið að gera stikkprufur í sumu, því nokkrir brandaranna sem heyrðust á sviðinu í gærkvöld féllu einnig á uppistandi í Háskólanum á Akureyri fyrir tveimur vikum. Verkið er sviðsetning Leikfélags Akureyrar og menningarhússins Hofs. Þau Halldór Laxness Halldórsson (Dóri DNA) og Saga Garðarsdóttir skrifuðu það. Benedikt Karl Gröndal á þétta innkomu og Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir.
Verkið er gamanverk og auglýst sem “sprenghlægilegt”. Saga og Dóri leika sig sjálf, hvernig hinn veraldlegi heimur þeirra snýst um að fá gigg, tækifæri til að koma fram, vera fyndin og fá fólk til að hlæja. Hlátur annarra aflar þeim tekna bæði í leikritinu sem og í raunveruleikanum. Hlátur annarra aflar þeim lifibrauðs í heimi þar sem markaðs- og peningaöfl takast á við frelsi fólks að vera það sjálft. Þarna er einnig fjallað um hið listræna frelsi sem er mismikið innan ólíkra menningarkima og tengist upppeldi, hóphyggju, stjórnmálaviðhorfum og fleira.
Í verkinu gengur annarri aðalpersónunni (Dóri og Saga eru kærustupar í leiksýningunni) betur en hinni að afla lifibrauðsins. Svo verður lítið slys. Slysinu fylgir örþrifaráð og viðsnúningur. Grínið verður dauðans alvara og eftir situr spurningin: Hverju má gera grín að og hver má gera það? Hvað með frelsi og forræði? Erum við öll orðin handbendi hins samræmda almenningsálits, sem þó þegar grannt er skoðað er e.t.v. afurð leiðandi álitsgjafa? Hvort kemur á undan hænan eða eggið? Mér datt í hug Robert Orben sem sagði svo hnyttilega: „Ólöglegir innflytjendur hafa alltaf verið vandamál í Bandaríkjunum. Spyrjið hvaða indíána sem er, þeir munu staðfesta það.“ Það er margt „punchið“ í þessari sýningu sem kemur úr óvæntri átt og er líklegt til að hrista upp í lífi þeirra sem telja að upphaf og endimörk alheimsins hafi skapast með okkar eigin fæðingu og okkar eigin sjónarhorni.
Í samtímanum getur það jarðað feril uppistandara, leikara, stjórnmálamanns, blaðamanns og margra annarra að nota eitt vitlaust orð, aðeins einu sinni. Indíáni er t.d. orð sem löngu er bannað að nota. Kannski má samt nota það ef maður notar það í brandara sem fjallar um yfirgang annarra. En það er ekki eins og að einhver hafi tekið saman samræmdar leikreglur um hvað megi og hvað ekki, enda er það ekki hægt. Hver dagur er jarðsprengjusvæði hjá þeim sem ætlar sér að ögra, hvað þá þeim sem vinna við það. Að elta álitsgjafana og halda sig innan hópa er vitaskuld öruggast. Það gæti að sama skapi verið geldandi fyrir samfélagið.
Sumt fannst mér brilljant í þessari sýningu en annað hefði þolað meiri yfirlegu, fleiri lausnir og ögn þéttara handrit. Allt sem Saga Garðarsdóttir skrifar spyr áhugaverðra samfélagslegra spurninga og hún er líka stjarnan á sviðinu. Dóri er frábær líka. Það er vændi að vera til, held við getum öll sammælst um það. Sumir alvöru Íslendingar sem hafa vinnu af samspili vændis, ímyndar og trúverðugleika fá í leikritinu gráglettnislega á baukinn. Það má nefna Hallgrím Helgason rithöfund, Brynjar Níelsson og Hönnu Birnu. Góðlátlega, myndu sumir segja, rætið grín myndu aðrir segja. Óljós mörk veruleika og skáldskapar eru styrkur sýningarinnar. Án djóks er fyndni afstæð. Samt spyr sýningin hvort til séu mörk með því að fara reglulega yfir þau, oft með brútal hætti. Hver og einn leikhúsgestur verður að finna það í sjálfum sér hvar eigin mörk liggja. Það þýðir þó ekki að við eigum alltaf að skoða öll fyrirbæri með póstmódernískum hætti og setja afstæðið í efsta sæti öllum stundum. Eða hvað?
Þeir sem láta sig hag minnihlutahópa varða verða að kyngja barkakýlinu nokkrum sinnum á meðan á sýningu stendur. Þarna eru ýmis húmoratabú sem vöktu ólík viðbrögð, kannski eitthvað tengt menningarmun ólíkra kynslóða. Heilu bekkjaraðirnar grétu framan af úr hlátri en stundum var slatti af skelfingu í þeim hlátri. Eitthvað af fólki festist í hlátrinum á löngum skeiðum, dæmi um mikið taugaáreiti, það fylgir því að fara yfir mörk, stundum er það nauðsynlegt – stundum kannski stórskaðlegt.
Sá sem fer á „Þetta er ekkert grín, án djóks“ verður að finna svör við flóknum spurningum í eigin ranni, svör við flóknum spurningum sem við keppumst á hverri sekúndu við að einfalda, afgreiðum þær með instant áliti og palladómum, eltum iðulega hvert annað til að spara okkur tíma og vesen. Kannski snúast helstu skilaboð verksins um það, auk þess sem sagt er að hláturinn lengi lífið.
En í leikhúsinu verður hláturinn oft dálítið sakbitinn, í því felst snilld þessarar sýningar.
Björn Þorláksson