Sagan af því þegar ísbjörn bjargaði ömmu og hún mér

Fann þessa fallegu mynd af ömmu og afa á flandri um Facebook. Anna Jakobína og Kristinn frá Dröngum gegndu um tíma tveimur hlutverkum í lífi mínu, ég var barnabarn þeirra og svo voru þau um tíma líka foreldrar mínir. Þennan texta skrifaði ég um ömmu fyrir 13 árum síðan þegar hún gekk út af sviðinu:

Ég hef séð ísbjörn deyja á túninu í Skjaldabjarnarvík á Ströndum. Ég stend við gluggann við hlið ömmu og við tökum andköf þegar blóðið spýtist úr skepnunni yfir snjóhvítt túnið. Langafi minn, Guðjón, gengur að dýrinu og stjakar við því með hlaupinu. Ég hef séð þennan björn svo oft. Fyrst þegar ég var drengur, kannski sex ára, uppi á háalofti í Hafnargötu í Bolungarvík og amma er að svæfa mig, og svo síðast á sjúkraheimili á Akranesi þar sem amma mín bjó síðustu ár ævi sinnar. Þá var ég orðinn nokkuð fullorðinn en amma enn þá lítil falleg stúlka.

\"\"

Amma og afi - Anna Jakobína Guðjónsdóttir og Kristinn Jónsson frá Dröngum á Ströndum.

 

Ísbirnir hafa í gegnum tíðina ekki aðeins bjargað litlum veiðimannasamfélögum á Grænlandi. Áður fyrr var mikill fengur í slíkri skepnu í harðbýlum sveitum þar sem kjör voru kröpp. Og einn góðan veðurdag leggur ísbjörn land undir fót, þrammar þungum skrefum eftir ísbreiðum Grænlands eða Svalbarða til þess að bjarga fjölskyldu við nyrstu byggð á Ströndum. Ísbjörninn stendur gegnt langafa, ég og amma erum í glugganum. Selur klýfur sjóinn og horfir forvitinn að landi. Fjöllin eru snarbrött og hrikaleg og inni í fjörðunum sogar djúpið fjöllin til sín og þeytir þeim upp á yfirborðið og svo hleypir langafi af. Og allt er breytt. Langafi kaupir bát og leigir jörð í Þaralátursfirði og flytur frá Skjaldabjarnarvík þar sem hann hafði búið við kröpp kjör ásamt fjölskyldu sinni.Við amma höldumst í hendur við gluggann. Hún lítil og ég stór. Ég man þegar hún byrjaði að missa minnið. Fyrst í stað gleymdi hún hvar hún hafði lagt frá sér hluti og að lokum endaði hún í Skjaldabjarnarvík þar sem við stöndum nú við gluggann og horfum á björninn deyja.

Ég bjó hjá afa, ömmu og pabba í nokkur ár. Amma mín gekk mér í móður stað. Ég var hjá þeim á Dröngum og Seljanesi öll sumur þar til ég var þrettán ára. Amma las fyrir mig á hverju kvöldi þar til ég sofnaði. Hún færði mér kakó í rúmið. Þegar faðir minn hóf svo sambúð með fósturmóður minni var ég orðinn svo fordekraður að þegar mér var fengið það hlutverk að raða skónum og taka til í herberginu mínu strauk ég að heiman. Hún varði mig þegar ég þurfti á því að halda. Ég var klaufskur við matarborðið eins og flestir Strandamenn og þegar ég skreytti dúkinn með uppstúf eða sel og einhver af bræðrum pabba sagði:

„Getur þú ekki haldið matnum á disknum, drengur,“

Og þá sagði amma: „Hann er nú örvhentur greyið.“

Og þegar manneskja deyr ólmast minningarnar óreiðukenndar í höfðinu og ég man þegar amma kenndi mér að lesa, þegar hún náði í mig til Reykjavíkur og við sigldum til Akureyrar og þaðan á Strandirnar, þegar hún fylgdi mér í skólann, þegar hún horfði á mig frá útidyrahurðinni hvern einasta dag sem ég gekk frá Hafnargötunni að Grunnskólanum í Bolungarvík. Ég man eftir henni halda á mér og syngja fyrir mig, ég man eftir henni að prjóna, ég man mjúkar hendur hennar og hljómfagra röddina, fegurðina og glaðværðina í augunum og ég man eftir sögunni um músina sem beit hana í fingurinn og kramdir þú ekki þessa mús, amma? Nei, hún talaði mjög fallega um þessa mús og hún talaði um þessa mús og þennan ísbjörn á meðan við vorum í fjörunni á Dröngum að tína sprek í eldinn, og sólin var að setjast og sólrákin náði upp í landsteina og krían var þarna á sveimi að kljúfa djúpið upp á við með síli í gogginum og amma sagði:

„Ég hef aldrei drepið neina lifandi veru um ævina, nema flugu og það var óvart.“

Amma mín var um tíma mamma mín og ég sakna hennar, í raun byrjaði ég að sakna hennar fyrir einhverjum árum og var svolítið afbrýðisamur út í þennan ísbjörn þegar hún gat ekki lengur framkallað minningarnar sem við áttum saman. En sagan af ísbirninum var góð, og ég er þakklátur örlögunum að senda ömmu þennan ísbjörn. Fleira var það ekki í bili, elsku amma mín, ég bið að heilsa í bæinn.

Að því sögðu vil ég vitna að hluta í grein sem birtist á Viljanum sem fjallaði um að fátt sé börnum hollara en að vera í samvistum við ömmur sínar og afar. Þar voru birtar fimm ástæður fyrir því að börn hafi gott af því að vera mikið með afa og ömmu. Á Viljanum sagði:

  1. Rannsókn Háskóla í Oxford hefur leitt í ljós að börn sem eru náin afa sínum og ömmu glíma síður við tilfinninga- eða hegðunarvanda. Þá eiga þau betra með að vinna úr erfiðri lífsreynslu á borð við skilnað foreldra eða einelti í skóla.
  2. Börn sem hafa skilning á reynslu kynslóðanna og sögu eigin fjölskyldu hafa sterkari sjálfsmynd og betri stjórn á eigin lífi, jafnvel þótt lífið utan veggja heimilisins gangi upp og ofan. Lífsreynslusögur þeirra sem eldri eru, geri það að verkum að börnin átti sig á því að lífið snýst um fleira en þau sjálf og að hægt sé að vinna bug á mótlæti og erfiðum aðstæðum.
  3. Börn sem njóta samvista við sér eldra fólk þróa síður með sér fordóma.
  4. Samvistir við ömmu og afa geta dregið úr líkum á þunglyndi barna þegar þau komast á fullorðinsár. Það hefur jafnframt andleg áhrif á ömmu og afa, svo ávinningurinn er gagnkvæmur!
  5. Það eykur langlífi ömmu og afa að vera samvistum við barnabörnin og hafa líf og fjör á heimilinu, þar sem annars getur verið ansi rólegt og einmanalegt.

Niðurstaðan er því að barnabörn og ömmur og afar hafa öll gott af nánum samgangi. (Sjá grein Viljans í heild sinni.) Barnabörnin verða andlega sterkari og heilsa þeirra sem eldri eru styrkist.