Núverandi ríkisstjórn er veik, verklaus og líkleg til að hrökklast frá eftir skamma valdatíð án þess að geta státað af miklum afrekum. Vegna þess hve landsmenn eru orðnir þreyttir á kosningum, verður takmörkuð stemmning fyrir því að fella ríkisstjórnina á þessu ári og því ætti hún að geta hangið við völd fram á næsta vetur. Hins vegar er útlit fyrir að staðan á vinnumarkaði verði með þeim hætti í byrjun næsta árs að ekki ráðist þá við neitt og að ríkisstjórnin muni þá falla án þess að margir muni sakna hennar.
Deilan við ljósmæður er dæmi um gæfuleysi ríkisstjórnarinnar. Ljósmæður eru einungis um 300 talsins. Trúlega ein minnsta stétt landsins. Fyrir liggur að starfskjör ljósmæðra eru óeðlileg miðað við þá menntun sem af þeim er krafist. Það hlýtur hver maður að sjá að ekki gengur upp að ljósmæður hafi lakari starfskjör eftir að hafa bætt við sig tveggja ára háskólanámi heldur en þær höfðu áður en ráðist var í það nám. Það blasir við að gera þarf leiðréttingu á starfskjörum þeirra vegna einhverrar kerfisvillu sem gildir og þarf að lagfæra í eitt skipti fyrir öll. Eftir það gæti stéttin svo fylgt öðrum heilbrigðisstéttum í launaþróun.
Langvinnar kjaradeilur ríkisvaldsins við þessa viðkunnarlegu kvennastétt eru óskiljanlegar. Þær bera vott um margt: Skort á velvilja ríkisvaldsins í garð stéttar sem varðar okkur öll. Skort á skynsemi. Skort á pólitísku innsæi og loks bera þær vott um valdhroka ráðherranna.
Á meðan Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir voru í stjórnarandstöðu þá spöruðu þær ekki stóru orðin ljómæðrum til varnar. Þá töldu þær óhæfu að ríkið gengi ekki að óskum þeirra um leiðrétt starfskjör. Það fannst þeim sjálfsagt enda bára þær enga ábyrgð í stjórnarandstöðu og höfðu ekkert vald. En nú eru þær báðar ráðherrar – alla vega enn um sinn – og þá hafa þær vald til að leiða mál af þessu tagi til lykta. En það gera þær ekki. Þær eru ekki samkvæmar sjálfum sér. Þær sýna af sér grímulausa hræsni gagnvart þessari kvennastétt.
Fjármálaráðherra sýnir sitt rétta andlit í deilunni við ljósmæður. Hann sýnir valdhroka og virðingarleysi gagnvart vinnandi fólki. Hann fer með innantóma frasa um að kjarabætur til eins hóps geti kollvarpað þjóðfélaginu, leiði til höfrungahlaups á vinnumarkaði og kalli yfir þjóðina verðbólguholskeflu. Hann viðurkennir ekki að hér er um óhjákvæmilega leiðréttingu á kerfisvillu að ræða. Hann hafði ekki nærri eins miklar áhyggjur af óðaverðbólgu þegar vinir hans í Kjaradómi hækkuðu laun hans og annarra ráðherra og þingmanna um 40%. Það var allt í lagi enda skiptir öllu máli hvort um er að ræða Jón eða séra Jón.
Bjarni Benediktsson hefur ekki sýnt launþegum mikinn skilning þegar umræður um starfskjör eða kjaradeildur eru annars vegar. Hann hefur sennilega aldrei þurft að hafa áhyggjur af peningum eða peningaleysi, fæddur með silfurskeið í munni eins og alkunna er. Hann hefur heldur ekki borið mikla virðingu fyrir peningum sem tapast hafa með aðkomu hans og þeirra sem standa honum næst. Þannig hefur það komið opinberlega fram, án þess að vera mótmælt, að fyrirtæki sem hann tengdist töpuðu 130 milljörðum króna í hruninu. Um þetta má m.a. lesa á bls. 46 í bókinni Hinir ósnertanlegu sem kom út í lok árs 2017. Þeir sem einkum töpuðu á þessum umsvifum voru íslenskir lífeyrissjóðir sem eru í eigu fólksins í landinu.
Þegar núverandi ríkisstjórn kynnti fjármálaáætlun til fimm ára í apríl sl., en hún þótti meingölluð og ótrúverðug, þá gerði fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson mikið úr því að „lélegt fjármálalæsi“ þjáði mikinn fjölda fólks hér á landi. Svarthöfði í DV orðaði það svo í pistli sínum þann 6. apríl sl. að þarna væri Bjarni að vísa til „hálfvitanna sem kunna ekki að eiga peninga“.
Fjármálaráðuneytið fer með kjarasamninga ríkisins. Í umboði ráðherra hafa embættismenn ráðuneytisins valið að berjast við ljósmæður með útúrsnúningum og hálfgerðum falstölum varðandi starfskjör þeirra og fleiri stétta. Þetta hjálpar ekki og mun ekki greiða fyrir friðsamlegri lausn mála. Ljósmæður hafa sagt upp og horfið úr störfum sínum og þær eru tilneyddar til að hefja yfirvinnubann á næstunni, allt í boði Katrínar Jakobsdóttur, Svandísar Svavarsdóttur og Bjarna Benediktssonar sem öll hafa blindast af valdhroka.
Þjóðin er á bandi ljósmæðra. Kjósendur bíða eftir næsta tækifæri til að veita ráðherrunum verðskuldaða ráðningu. Mjög styttist í það uppgjör.
Rtá.