Haltrandi af stað. fær samfylkingin tvo þingmenn á silfurfati?

Það var vægast sagt vandræðalegt fyrir Vinstri græna að tveir af ellefu þingmönnum flokksins skyldu ekki treysta sér til að styðja stjórnarsáttmálann í gær. Þau Rósa Björk og Andrés Ingi voru samkvæm sjálfum sér og þorðu að lýsa sannfæringu sinni og neituðu að styðja nýjan málefnasamning. Loksins þegar íslenskur sósíalistaflokkur fær embætti forsætisráðherra, þá tekst þeim ráðherra ekki að koma liði sínu í heilu lagi inn á völlinn. Þetta minnir helst á þá einstöku seinheppni sem stundum hendir hjá íþróttaliðum þegar leikmenn slasast í upphitun og eru úr leik áður en sjálfur leikurinn hefst.

 

Vandséð er að þau Rósa Björk og Andrét Ingi geti þrifist innan þingflokks Vinstri grænna eftir það málefnauppgjör sem fram hefur farið hjá flokknum. Þau geta reynt að vinna með hinum þingmönnum flokksins en munu fljótlega komast að raun um að það mun ekki ganga. Þau verða útskúfuð og þau munu trúlega forða sér yfir í annan þingflokk þar sem þau yrðu velkomin.

 

Samfylkingin mun taka þeim opnum örmum. Þau eiga heima þar. Maður Rósu Bjarkar er innsti koppur í búri Samfylkingar og leiðin þangað er stutt og greið fyrir þau tvö. Það yrði mikill fengur fyrir Samfylkingu að fá þau til liðs við sig og það er mikill missir fyrir VG að hafa hrakið þau frá sér. Ef til kemur þá verða þingflokkar Samfylkingar og VG jafnstórir, níu manna. Vígstaðan mundi breytast umtalsvert við þetta. Ljóst er að ríkisstjórnin er mun veikari vegna þessara vandræða. Ekki gott að fara “haltrandi af stað” eins og Eiríkur Bergmann orðaði það réttilega.

 

Það verður hinsvegar ekki ónýtt fyrir Samfylkinguna að fá strax tvo unga og öfluga þingmenn til sín á silfurfati, verði það niðurstaðan.

 

Þá verður ekki vart við mikla hamingju í röðum sjálfstæðismanna. Margir flokksmenn finna fyrir miklum ónotum af því að leiða Vinstri græna til öndvegis. Formanninn í stól forsætisráðherra og Steingrím J. í embætti forseta Alþingis – eftir allt sem á undan er gengið, þar á meðal óheilindin í Landsdómsmálinu. Svo situr flokkurinn uppi með nokkra freka karla sem fá sínu ekki frmagengt og munu verða til leiðinda vegna þess. Páll Magnússon og Jón Gunnarsson eru í átaknlegri fýlu og það gæti dregið dilk á eftir sér.

 

Margt bendir til þess að vinstristjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna verði ríkisstjórn mikillar kattasmölunar.

 

Katrínu Jakobsdóttur hefur verið líkt við vansæla brúður sem giftir sig til fjár og verður dæmd til að lifa í ástlausu hjónabandi.

 

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ekki þarf að búast við að þetta hjónaband verli langlíft.

 

Rtá.