Halldór Halldórsson kom flestum á óvart þegar hann tilkynnti í liðinni viku um brottför sína úr borgarmálum næsta vor.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa reynt að kenna Halldóri einum um ófarir sínar í borginni en það er ósanngjarnt. Flokkurinn allur hefur verið liðónýtur í störfum sínum að borgarmálum mjög lengi. Hnignunin er mælanleg í bráðum 20 ár og byrjaði löngu áður en Halldór kom í bæinn fyrir fjórum árum.
Reynt hefur verið að finna nýjan leiðtoga fyrir borgarmálin í Reykjavík en án árangurs. Allir sjá að núverandi borgarfulltrúar eru ekki forystumenn og myndu gera endanlega útaf við flokkinn ef þeim yrði fengið leiðtogasætið. Þetta á við um Áslaugu og Mörtu en þó einkum Kjartan Magnússon sem þykir ekki hafa neina pólitíska útgeislun. Kjartan væri draumur núverandi meirihluta sem gæti ekki fengið hentugri andstæðing en hann.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er sterki maðurinn í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Hann vill auðvitað ráða miklu um það hver leiðir lista flokksins í borginni næsta vor. Hann vill sinn mann í leiðtogasætið. Sá maður er Borgar Þór Einarsson, sonur Ingu Jónu og stjúpsonur Geirs Haarde.
Til að rýma fyrir Borgari á toppnum hefur Guðlaugur boðið Halldóri til starfa í utanríkisþjónustunni næsta vor. Hann hefur ágæta reynslu sem nýtast má þar. Athygli vakti að Halldór talaði sérstaklega um alþjóðamál við fjölmiðla þegar hann tilkynnti ákvörðun sína í síðustu viku. Það þykir renna frekari stoðum undir þetta.
Þá vakti það einnig athygli að Borgar Þór neitaði því ekki að hann ætlaði fram þegar fjölmiðlar gengu á hann fyrir helgina.
Hann vildi ekkert segja sem sýnir klókindi.
Ekki er víst að allar klíkur í Sjálfstæðisflokknum taki því fagnandi að vinur Guðlaugs Þórs taki forystusætið.
Mörgum þeirra þykir víst nóg um sterka stöðu utanríkisráðherra í flokknum.
Nefnt hefur verið að Hádegismóinn reyni að ýta Eyþóri Arnalds í framboð en hann er fluttur til Reykjavíkur frá Selfossi og búinn að koma sér fyrir í 101 Reykjavík, sem virðist vera nánast skilyrði fyrir setu í borgarstjórn!
Fram að þessu hefur hugmyndin um Eyþór verið hlegin út af borðinu þegar ýmislegt hefur verið rifjað upp.
Rtá