Halldór blöndal snuprar davíð en mun ofbeldið sigra?

Þegar þetta er skrifað má sjá á vef Alþingis (síðdegis 12. Júní 2019) að 22. mál á dagskrá þingfundar er hinn svokallaði þriðji orkupakki. Þetta er framhald síðari umræðu. Á mælendaskrá eru sjö þingmenn, allir úr Miðflokknum. Fyrstur á mælendaskrá er Karl Gauti Hjaltason með sína 36. ræðu um málið, næstur Bergþór Ólason, 35. ræða, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 45. ræða, Sigurður Páll Jónsson (varaþingm.) 8. ræða, Gunnar Bragi Sveinsson, 23. ræða, Birgir Þórarinsson, 39. ræða og loks Ólafur Ísleifsson með sína 27. ræðu um málið.  

Eins og margoft hefur komið fram hafa þessir þingmenn hertekið ræðustól Alþingis í málþófi sínu um þetta mál. Aðeins þeir og Morgunblaðið halda því fram að einhverjar hliðar málsins séu enn óræddar eftir þetta maraþonmálþóf sem slegið hefur öll met og hindrar að önnur mál komist að.

Forseti þingsins, sem sjálfur er svosem enginn engill í málþófssögunni þó hann komist ekki með tærnar þar sem þessir hafa hælana, á engin ráð við þessi ofbeldi Miðflokksmannanna. Maraþonfundir heilu næturnar eru orðnir daglegt brauð. Miðflokksmenn vilja fá málið af dagskrá og geta ekki sætt sig við að vera í minnihluta. Þeir eru ákaft hvattir áfram af ritstjóra Morgunblaðsins.

Í tímamótagrein, sem að líkindum markar pólitísk vatnaskil í landinu, og birt var í Morgunblaðinu í gær, 11. júní 2019, ávarpar Halldór Blöndal, einn helsti máttarstólpi Sjálfstæðisflokksins undanfarna liðlega hálfa öld, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrum foringja sinn m.a. með þessum orðum:

„Margt fellur mér illa í þessu þínu síðasta Reykjavíkurbréfi en verst þó, að þú skulir halda því fram að í þriðja orkupakkanum felist framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Það er ekki fótur fyrir þessari fullyrðingu. Og það er raunar athyglisvert að þú skulir setja hana fram. Þjóðin á það þér að þakka, að samningar tókust um hið Evrópska efnahagssvæði og þú sannfærðir mig og aðra um, að sá samningur rúmaðist innan ákvæða stjórnarskrárinnar. Sömuleiðis fyrsti og annar orkupakkinn. Þar vannstu gott verk og þarft.“

Seint verður Halldór Blöndal sakaður um að gerast óþjóðhollur eða vilja brjóta gegn stjórnarskrá landsins, þingmaður til áratuga, ráðherra og forseti Alþingis. Við lestur þessarar ádrepu hans yfir ritstjóra Morgunblaðsins verður svo skýrt sem verða má, að það yfirvarp þingmanna Miðflokksins – og ritstjóra Morgunblaðsins – að enn sé margt órætt um orkupakka 3 og að málið brjóti gegn stjórnarskrá landsins er einmitt bara það: Yfirvarp! 

Það sem þessum litla minnihluta á Alþingi gengur til er augljóslega aðeins það að beita mikinn meirihluta þingsins ofbeldi, knýja fram sinn vilja (og Morgunblaðsins) með ósvífni og ofbeldi. Forseti þingsins veigrar sér við að nota þau tól sem hann þó hefur til að stöðva þessa ofbeldismenn og í því skjóli halda þeir áfram.

Þetta er svo sem ekki einsdæmi í veraldarsögunni, að þeir sem eru ósvífnastir að beita ofríki og ofbeldi hafi sitt fram. Afdrifaríkast var það þegar hófsemdarmenn og lýðræðissinnar gáfust upp og létu undan í Þýskalandi á öndverðum 4. áratug síðustu aldar.