Halla Vilhjálmsdóttir Koppel er mörgum Íslendingum að góðu kunn. Halla, sem hefur gert það gott bæði sem leik- og söngkona, býr í London ásamt eiginmanni sínum, Harry Koppel, og eiga þau saman þrjú börn.
Halla er í viðtali í aukablaði Morgunblaðsins í dag þar sem hún ræðir meðal annars um fjölskylduna og lífið í London. Þema blaðsins eru börn og lýsir Halla því meðal annars í viðtalinu hvað varð til þess að hún ákvað að breyta um stefnu í lífinu og stofna fjölskyldu.
„Það urðu breytingar í lífinu hjá mér þegar ég missti afa minn árið 2009. Ég man augnablikið þegar ég sat í jarðarför afa og horfði á ömmu mína sitja á fremsta bekk í kirkjunni. Þótt hún hafi eflaust saknað hans mikið þá var eitthvað svo einstakt við að sjá hversu mikið hjónabandið hafði gefið þeim. Fjöldann allan af börnum og barnabörnum. Það var á þeirri stundu sem ég ákvað að eignast fjölskyldu sjálf. Þegar ég hitti Harry vissi ég að hann yrði frábær faðir og svo vorum við einnig miklir vinir. Í raun held ég að við höfum aðallega verið heppin með hvort annað. Mér finnst alla vegana mjög mikil blessun að fá að eignast þrjú börn með besta vini mínum.“
Halla, sem lék meðal annars í myndunum Astrópíu og Gemsum, hefur í nógu að snúast en hún starfar fyrir bandaríska fjárfestingabankann Goldman Sachs. Leiklistin er komin á hilluna í bili að minnsta kosti en tónlistin er ekki langt undan og hefur hún haldið áfram að skrifa og taka upp með föður sínum, gítarleikaranum Vilhjálmi Guðjónssyni.