Hágrátandi Þórunn Antonía: „Gott að vita að það kostar einungis 1 milljón að nauðga mér“

Þórunn Antonía segist vera í algjöru áfalli og spennufalli eftir að dómur var upp kveðinn yfir nuddaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni í Landsrétti í dag. Þórunn tjáir sig á einlægu nótunum í Facebook færslu en hún er ein þeirra kvenna sem Jóhannes braut á.

Dómurinn yfir Jóhannesi var þyngdur um eitt ár í Landsrétti í dag og hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum á nuddstofu sinni. Brotin voru framin í skjóli starfs hans sem nuddari á tíu ára tímabili, frá árinu 2007 til 2017. Fréttablaðið greindi frá dómnum fyrr í dag.

Þórunni er mikið niðri fyrir vegna dómsins. „Aldrei á ferlinum spurði ég hvað ég fengi í bæutr því ég kæri ekki kynferðisbrot fyrir peninga. En gott að vita að það kostar einungis 1 milljón að nauðga mér.“

Hún bendir á að um það bil 35 konur hafi kært Jóhannes og Þórunn segir margfalt fleiri ekki hafa þorað að kæra.

Þórunn segist hafa setið með vinkonum á veitingastað því hún hafi þurft stuðning til þess að taka við fréttunum. Hún segist hafa átt í ótrúlegu samtali við kunningjakonu sem hreinlega hafi rifist við Þórunni um cancel kúltúr svokallaðan.

„Þegar ég veit á eigin skinni að það eru miklu miklu frekar þolendur ofbeldis sem flosna upp úr vinnu, starfi, ferli sínum, það veit ég á eigin skinni eftir að ég var td rekin úr mínu stærsta sjónvarpsverkefni vegna þess eins að ég sagði frá ofbeldi og einelti á vinnustað og ég hef ekki átt afturkvæmt á sjónvaprskjá síðan þrátt fyrir bæði hæfileika, reynslu og vilja,“ segir Þórunn.

Hún segir miklu fleiri þolendur útskúfaða heldur en gerendur. Þá vindur Þórunn sér næst í að ræða dóminn yfir Jóhannesi.

Þórunn segist ekki hafa ætlað að kæra hann, því eitt það erfiðasta sem hún hafi gengið í gegnum hafi verið að kæra mann fyrir nauðgun.

„Viðmótið á lögreglustöðinni. Niðrandi athugasemdir í dómsal. Kvíðin að gerandi hefni sín osfrv. Að ég verði drusluskömmuð fyrir alþjóð. Enn ein athyglissjúka gellan sem var sov heimsk að koma sér í þessar aðstæður alveg sjálf. Eins og ég fékk að heyra um daginn frá manni háttsettum á íslenskum fjölmiðli.“

Þórunn segist sitja heima hjá sér hágrátandi yfir því að loksins sé komin niðurstaða í málið. „Ég upplifi að ég sé búin að teyma á eftir mér öskrandi risa í mörg ár og einn af hlekkjunum er allavegana horfin úr þeirri lest. Ég kærði þennan mann vegna þess að ég heyrði af því að það væru svo ótal margar stúlkur og konur sumar barnungar sem hann braut á. Þá varð ég reið. Það þarf að stöðva þessa menn. Ég þorði. Ég þori en það tók allt sem ég á.“