Óstaðfestar fregnir herma að Davíð Oddsson muni hætta sem ritstjóri Morgunblaðsins nú um áramótin. Talið er að ætlun hans og aðaleigenda blaðsins hafi verið sú að hann stýrði blaðinu fram yfir kosningar og helst einnig fram yfir “farsæla” stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Framsóknar með einhverjum flokki til viðbótar. Ekki er víst að það takist og gæti því komið til þess að Davíð sæti á ritstjórastóli eitthvað lengur.
Morgunblaðið hefur verið rekið með fé sægreifa og landbúnaðarfyrirtækja síðustu 7 árin, lengst af undir ritstjórn Davíðs sem hefur notað blaðið í málsvörn sinni en jafnframt gætt þess að líta eftir hagsmunum eigenda sinna. Árvakur hf., útgáfufyrirtæki Morgunblaðsins, hefur tvívegis farið í gegnum fjárhagslega endurholdgun þegar bankar hafa gefið milljarðaskuldir eftir gegn allnokkru hlutafé frá núverenda eigendum.
Ljóst er að eftirmaður Davíðs Oddssonar verður valinn af kostgæfni út frá hagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar. Hann mun koma úr innsta kjarna Framsóknar eða Sjálfstæðisflokks, maður sem verður handgenginn eigendunum og hagsmunum þeirra.
Dagfari hefur fregnað að enginn núverandi starfsmanna blaðsins komi til greina sem eftirmaður Davíðs. Helst mun nú vera staldrað við Sigmund Davðið Gunnlaugsson alþingismann eða Ara Edwald, forstjóra Mjólkursölunnar, sem þykir lipur í útréttingum fyrir landbúnaðinn og sérhagsmuni hans. Ari var ritstjóri Viðskiptablaðsins um tíma í kringum síðustu aldamót. Hann var genginn úr Sjálfstæðsiflokknum af hugsjónaástæðum en gekk í flokkinn að nýju þegar honum bauðst forstjórastarf í Mjólkursamsölunni. Við það breyttist pólitísk lífsskoðun hans.
Sigmundur Davíð er þó talinn mun líklegri. Tími hans í stjórnmálum er liðinn og fáir gera ráð fyrir því að hann hafi skap til að sitja á Alþingi sem óbreyttur og valdalaus þingmaður eftir að hafa gegnt embætti forsætisráðherra og verið hrakinn úr því vegna fjármálaumsvifa á Tortóla.