Að því er fram kemur í greinargóðri samantekt RÚV um málið er talið að veira sem berst með biti moskítóflugu valdi því að þúsundir barna hafa fæðst með microcephaly eða smáheila. Yfirvöld í Brasilíu greindu frá því á miðvikudag, að allt að 4.000 börn hefðu fæðst með smáheila síðan í október. Börnin fæðast með óeðlilega lítið höfuð og getur það valdið hreyfihömlun og skertum vitsmunaþroska, og jafnvel dauða. Fjörutíu og níu börn hafa látist í Brasilíu á síðustu misserum, að því er talið er vegna þessa fósturskaða. Í Kólumbíu hefur verið tilkynnt um 13500 tilfelli.
Svo enn sé vitnað til fréttar RÚV er talið að Zika-veiran valdi fósturskaðanum, þótt það sé ekki vitað með fullri vissu. Veiran berst með biti moskítóflugunnar. Brasilísk yfirvöld hafa hvatt fólk til að gera hvað það getur til að forðast bit. Konur hafa jafnvel verið hvattar til að fresta barneignum, sé það mögulegt.
Bandarísk yfirvöld hafa varað barnshafandi konur við ferðalögum til eftirfarandi landa: Bólivíu, Ekvador, Guyana, Brasilíu, Kólumbíu,
El Salvador, Frönsku Guiönu, Gvatemala, Hondúras, Mexíkó, Panama, Paragvæ, Súrínam, Venesúela, Barbados, Saint Martin, Haítí, Martinique, Puerto Rico og Guadeloupe í Mið-og Suður-Ameríku. Og til Samóa-eyja í Eyjaálfu og Grænhöfðaeyja í Afríku.