Hæstiréttur snuprar vandræðabarnið sigríði andersen

Enn versnar veik staða Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra eftir að Hæstiréttur setti ofan í við hana í gær.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Sigríðar þegar hún fór á svig við niðurstöðu hæfisnefndar við mat á dómurum í Landsdóm. Þá gekk hún framhjá fjórum umsækjendum sem metnir voru meðal þeirra hæfustu til að koma að öðrum sem nefndin mat ekki í hópi hinna hæfustu.

Það sem vekur mesta athygli í öllu þessu klúðri ráðherra er að hún skipaði Arnfríði Einarsdóttur, eiginkonu Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokks, í embætti Landsdómara þó hún væri ekki á lista yfir þá hæfu. Með því gekk hún freklega framhjá öðrum sem metnir voru hæfari.

Skipan Arnfríðar hefur valdið mikilli úlfúð og er talin geta skaðað orðspor Landsdóms vegna augljósra pólitískra fingrafara. Þeir sem gengið var framhjá hafa krafið ríkið um skaðabætur sem munu trúlega valda miklum útgjöldum.

Á það hefur einnig verið bent að Brynjar vék úr efsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir Sigríði sem leiddi því listann í stað Brynjars og varð ráðherra. Voru þessi miklu “almennilegheit” Brynjars hrein tilviljun?

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur áður hlotið dóm í Hæstarétti án þess að fást til að víkja úr embætti ráðherra. Hún svarar fjölmiðlum með hroka og derringi þess sem þjáist af minnimáttarkennd en lemur frá sér í stað þess að sýna auðmýkt. En Sigríður Andersen á enga auðmýkt til.

Sigríður er þegar orðin flokki sínum dýr og ekki hjálpar ádrepa Hæstaréttar tveimur dögum fyrir kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki efni á að slá áfram skjaldborg um þetta pólitíska vandræðabarn sitt. Við það minnkar trúverðugleiki flokksins enn frekar.

 

Rtá.