Hæstiréttur löðrungaður

 

Ég var kominn á 45. aldursár þegar ég hóf loksins háskólagöngu með markvissum hætti, ári eftir hrun.

 Ég lagði fyrst stund á þjóðfélagsfræði til BA-gráðu. Samfélagið var á þessum tíma uppfullt af hugmyndum um að bylta pilsfaldakapítalismanum sem kostaði okkur næstum þjóðargjaldþrot. Ég varð mjög upptekinn af hagsmunum hinna undirokuðu og raddlausu, lagði sérstaka áherslu á femínísk fræði og átakakenningar í þjóðfélagsfræði. Skrifaði BA-ritgerð um „gagnsemi átaka“ upp úr kenningum Lewis Coser. Þegar ég hélt áfram námi til mastersprófs við HÍ fjallaði lokaverkefnið mitt um látlausan þrýsting á blaðamenn frá efnahagsvaldi og öðru valdi.

Upplýsing fjölmiðla hefur áhrif. Spillt stjórnvöld sem huga fyrst og fremst að eigin hagsmunum og hagsmunum einkavina stjórnmálamannanna geta hæglega keypt sér framhaldslíf á kostnað almannahagsmuna, t.d. í gegnum fjölmiðla. Blaðamenn verða að vera gagnrýnir og sjálfstæðir í sínum skrifum, þeim ber að taka almannahag fram yfir eigið atvinnuöryggi og launagreiðslur ef til átaka kemur um það tvennt. Reglan er sú að því stærri sem fjölmiðlillinn er því betur gengur blaðamönnum að rækta það hlutverk. Veltur þó á nokkuð á eigendavaldi og hvort útgáfan er hluti af hidden agenda, keyrð áfram með duldu erindi sem tekur mið af sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum.

Með þessum formála hefur vonandi ljósi verið varpað á að sá sem hér skrifar mun seint taka stöðu með ægiöflunum á Íslandi.  Margir Íslendingar og þá ekki síst blaðamenn gera sér grein fyrir mikilvægi þess að hjóla í valdahnykilinn, þar sem hann er þykkastur. Mikilvægt er að sumir geri það að atvinnu sinni, vegna þess að vald spillir og algjört vald gerspillir eins og Aston lávarður orðaði það.

Fyrir mann sem reynir að líta til undirokaðra hópa með störfum sínum (og hluti þess er að átta sig á að jafnrétti kynjanna er hvergi nærri náð hér á landi) er afar áhugavert að bera sumar átakakenningar í þjóðfélagsfræði saman við það sem er að gerast í Hæstarétti þessa dagana. Manni dettur í hug að viðbrögð stjórnmálamanna, jafnvel þeirra sem hafa hneigst að íhaldssemi og hafa ekki verið þekktir hingað til fyrir að rugga bátum, bendi til þess að fólk hafi sagt: Hingað og ekki lengra! Þegar Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Allsherjarnefndar Alþingis, talar eins og hún talar, þegar hún hefur fengið nóg af siðspilltu karlaveldi þar sem kynjakerfið frystir konur frá einu helsta valdahlaðborði landsins – og útilokar ekki lengur kynjakvóta er það stórfrétt úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Unnur Brá telur nú koma til greina (ef innanríkisráðherra skipar ekki) að þingið ýti hæfri konu til dómarastarfa við réttinn í stað karlsins sem karladómnefndin vill sjá við kjötkatla karlagrúbbunnar í Hæstarétti. Unnur Brá segir um kvennahópinn sem útskrifaðist úr lagadeild HÍ: \"Við vorum stilltar og góðar“ eins og lesa má um hér. En þingkona Sjálfstæðisflokksins er hætt að vera stillt og góð. Nú sér hún hve óþolandi það er að sjö ára dóttir hennar hafi enga möguleika á að verða hæstarréttardómari. Allt vegna karllægrar hugsunar í kringum réttinn sem nánast útlokar konur.

Margir fleiri hafa risið upp. Þjóðfélagið logar af tilfinningum vegna þessa máls. Særð réttlætiskennd hinna raddlausu hefur brotið ísinn, frekjan og yfirgangurinn hefur enda gengið svo langt að Hæstiréttur telur sig ekki bundinn af jafnréttislögum, lögum sem sett voru í því skyni að vernda rétt kúgaðs hóps.

Átakakenning Max Webers kemur ekki síst upp í hugann. Weber skipti valdi í þrennt; regluvald, hefðarvald og náðarvald. Spyrja má hvort Hæstiréttur hafi talið sig búa yfir svo miklu hefðarvaldi – svona eins og kaþólska kirkjan - að  réttinum væru allir vegir færir til áframhaldandi yfirráða og í raun óréttar.

Kannski skortir Hæstarétt svolítið upp á karismaáhrifin eða náðarvaldið til að planið nái að ganga upp. Ef Hæstiréttur hefur vanmetið eigið ægivald gæti það orðið til þess að regluvaldið muni áður en öll kurl koma til grafar snupra réttinn og ráða hæfa konu til réttarins þvert gegn vilja dómnefndar. Þótt ekki væri nema í táknrænu skyni og til að leitast við að spegla örlítið blandaðri fjölbreytileika eins og stofnanir landsins eiga að gera. Ef þingið fer þessa leið yrði það löðrungur sem fulltrúum hefðarvaldsins í Hæstarétti myndi svíða undan en á sama tíma gætu fordæmisgefandi áhrif orðið afar jákvæð.

Engir sigrar vinnast án átaka segja femínísk fræði.

Saga Hæstaréttar þessa dagana gæti verið stak í mengi þeirrar kenningar.