Nú eru framboðslistar Sósíalistaflokksins farnir að skýrast og búið að kynna frambjóðendur í öllum kjördæmum nema Norðvestur. Áður hefur verið vikið að skorti á kanónum á listum flokksins auk þess sem fulltrúar verkalýðsins og ófaglærðs verkafólks eru vart sjáanlegir.
Flogið hefur að flokkseigandinn hafi mikið reynt að fá þekkt nöfn á lista en árangurinn hafi verið nær enginn. Loks þegar listinn, sem flokkseigandinn leiðir sjálfur, í Reykjavík norður birtist sást nafn sem einhverja athygli vakti. Gunnari Smára Egilssyni hafði ekki tekist að fá Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar til að leiða lista, eins og hann hafði vonast eftir. En hún fékkst til að taka sæti sem öruggt væri að að endaði hvorki sem þingsæti né varaþingsæti eftir kosningar. Hún er í fjórða sæti í kjördæmi eigandans. Bendir það til að Gunnar Smári hafi takmarkaða trúa á eigin kjörþokka og hyggist reyna að baða sig í ljómanum af frambjóðandanum í fjórða sæti.
Gunnar Smári er þjóðþekktur maður og fær einhver atkvæði út á það (tapar líka út á það). Búast hefði mátt við að hann reyndi að nýta vinsældir Sólveigar Önnu flokknum til framgangs í einhverju öðru kjördæmi en sínu eigin, en ef til vill telur hann þetta bestu leiðina til að tryggja kjör sitt til Alþingis.
Þeir örfáu frambjóðendur Sósíalistaflokksins sem kynntir eru til leiks sem verkafólk eiga það sammerkt að vera í sætum sem eiga vart stjarnfræðilegan möguleika á að gefa þingsæti í kosningunum í næsta mánuði. Engu er líkara en að flokkseigandinn, menntafólkið og listaspírurnar, sem öllu virðast ráða í flokknum, hafi fengið bakþanka þegar búið var að raða á lista og áttað sig á að kannski væri sniðugt að setja inn á lista eitthvað verkafólk í einhverjum kjördæmum – bara svona til að geta vísað til þess. Komi til þess að flokkurinn nái inn þingmönnum verða það einungis oddvitarnir sem koma til greina og þar er að finna flokkseigandann sjálfan, stjórnmálahagfræðing, myndlistakonu, atvinnulífsfræðing og kennara og kennara og verkefnastjóra hjá sveitarfélagi. Ekki einn einasti ófaglærða verkamaðnn eða verkakonu.
Innrás Gunnars Smára í íslensk stjórnmál virðist álíka vel úthugsuð og útrás hans á sínum tíma, þegar hann ætlaði að færa öllum heiminum fríblöð og verða vellauðugur sjálfur á því ævintýri. Fríblaðaævintýri Gunnars Smára endaði með skelfingu og milljarðatapi þeirra sem settu sitt traust á hann sem mikinn spámann á sínu sviði.
Sá er munurinn á fríblaðaævintýrinu og Sósíalistaflokknum nú að raunverulegir og sterkir bakhjarlar voru á bak við Gunnar Smára og óraunhæfar fjárfestingar hans í fríblöðum vestan hafs og austan. Samt fór það illa. Af framboðslistum Sósíalistaflokksins fyrir komandi kosningar að dæma er greinilegt að engir raunverulegir og sterkir bakhjarlar eru að baki Gunnars Smára nú. Flokkseigandinn er hávær og kemst víða að í fjölmiðlum til að láta ljós sitt skína. En það eru engir aðrir. Sósíalistaflokkurinn er tóm tunna þótt hátt bylji í eiganda hans.
- Ólafur Arnarson