„Mikið er þessi stöðuga herferð morgunblaðsins gegn miðborginni sorgleg,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Hún deilir frétt Morgunblaðsins í morgun þar sem fjallað var um Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. Fréttin snerist um það að á meðan fólk flykkist á Laugaveg og í Austurstræti nú þegar jólin ganga senn í garð standi Hafnartorg meira og minna tómt.
Nokkrar ástæður voru taldar upp, til dæmis veðurfar á þessum slóðum en norðanáttin á greiða leið niður Reykjastrætið og þá þykir vanta upp á að framboð þjónustu sé fjölbreyttara. Tekið var fram að á mörg hundruð metra fleti væri aðeins að finna H&M og COS.
Helgu Völu þykir illa vegið að Hafnartorginu enda fjölmargar aðrar verslanir á svæðinu.
„Ég mæli með að blaðamenn mæti á svæðið því það er svo sannarlega ekki "bara" HM og Cos heldur margar aðrar flottar verslanir og veitingastaðir á þessu umrædda svæði, meira að segja bara við hlið ljósmyndarans sem tók þarna mynd. Norðangarrinn er nú heldur ekkert að þvælast fyrir okkur, enda einmuna veðurblíða í bænum sem hefur laðað fólk að eins og aðrir fjölmiðlar hafa greint frá. Velkomin í miðborgina segi ég nú bara, hér er gott að vera.“
Gunnar Smári segir að nær væri að hlusta á gagnrýnina en skella skollaeyrum við henni. „Það var varað við þessu fyrirfram og fjöldinn allur, allskonar fólk, hefur bent á hvaða slys skipulagið í miðbænum er orðið, sérstaklega þarna. Það mætti kalla þetta skollaeyru-skipulag.“
Í frétt Morgunblaðsins var meðal annars rætt við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing, Pál Líndal umhverfissálfræðing og Hilmar Þór Björnsson arkitekt, en allir eru þeirrar skoðunar að Hafnartorg þjóni ekki tilgangi sínum í núverandi mynd.