„Í júlí 2009 voru laun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra 935 þús. kr. eða 1.482 þús. kr. á núvirði. Laun Katrínar Jakobsdóttur eru í dag 2.470 þús. kr. sem er 988 þús. kr. meira en Jóhanna var með á föstu verðlagi, sem gera 67% hærri laun.“
Þetta segir Gunnar Smári Egilsson í pistli á Facebook síðu Sósíalistaflokks Íslands. Hann skýtur föstum skotum á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
„Lágmarkslaun voru 157 þús. kr. í júlí 2009 eða 249 þús. kr. á núvirði. Lágmarkslaun eru núna 368 þús. kr. hafa hækkað um 119 þús. kr. umfram verðlag eða um 48%,“ segir Gunnar.
„Samt heldur Katrín því fram að öll áhersla hafi verið lögð á að bæta kjör hinna verst settu. Ef laun hennar hefðu hækkað hlutfallslega jafn mikið og lágmarkslaun væru þau 280 þús. kr. lægri en þau eru í dag. Katrín hefur tekið sér næstum heil lágmarkslaun í umfram hækkun. Ef þau hefðu hækkað jafn mikið og lágmarkslaun að krónutölu væru þau 869 þús. kr. lægri. Katrín hefur tekið sér næstum 2,4 lágmarkslaun í umframhækkun á þennan mælikvarða.“
Hann segir að það sé eitt að taka að sér meiri hækkanir en hinir verst settu í samfélaginu, en annað að neita að horfast í augu við það og stunda blekkingar.
„Afhverju segir Katrín einfaldlega skoðun sína hreint út; að hún eigi allt betra skilið en annað fólk?“