Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir að ekki sjái fyrir endann á íbúðaskorti á höfuðborgarsvæðinu en hann verði viðvarandi að minnsta kosti vel fram á næsta áratug.
Þetta kom fram í samtali við Gunnar í þættinum Afsal á Hringbraut í gærkvöld þar sem fjallar er um fasteigna-, húsnæðis- og skipulaagsmál, en þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar. Bæjarstjórinn vitnar þar í tölur um að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 70 þúsund fram til ársins 2022 - og þegar haft sé í huga að innan við þrjár manneskjur búi að meðaltali í hverri íbúð og tvö ár taki að jafnaði að reisa hverja eign þá verði að segjast eins og er að reikningsdæmið líti ekkert sérstaklega vel út.
Í einkar athyglisverðu og upplýsandi viðtali við Gunnar í þættinum kemur fram að hann er mótfallinn frekari sameiningu sveitarfélaga á suðvesturhorninu, jafnvel þurfi frekar að huga að því að skipta Reykjavík niður í smærri einingar. Það hafi enda sýnt sig að heppilegasta stærð sveitarfélaga hvað þjónustu og samhug íbúa varðar sé á bilinu 20 til 40 þúsund íbúar. Hann nefnir í því sambandi að samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar muni 25 þúsund manns búa þar á komandi árum - og þar sé einmitt kominn afar hagkvæm og mannskjuleg rekstrareining sem rannsóknir sýni að þjónusti íbúanna á sem hagfelldastan hátt.
Afsal er frumsýnt öll miðvikudagskvöld klukkan 21:30.