Það verður að segjast eins og er að þótt prófgráður, skólamenntun og Framsóknarflokkurinn sé mótsagnakennd blanda eins og fjöldi frétta af falsaðri doktorstign Sigmundar Davíðs er til merkis um á kjörtímabilinu, er vart hægt að grípa til annars líkingarmáls en þess að Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrum utanríkisráðherra, hafi skítfallið á lýðræðisprófinu, mér liggur við að segja spilingarprófinu, þegar hann ákvað í skjóli myrkurs á síðasta starfsdegi sínum í utanríkisráðuneytinu að smygla einni milljón króna út úr ráðuneytinu til nokkurra vina sinna með skúffufé.
Að hann hafi vogað sér að gera þetta, fjórum dögum eftir að 22.000 manns komu æfir saman á Austurvelli eftir eitt mesta spillingarmál í sögu íslenska lýðveldisins, sýnir að Gunnar Bragi hefur ekki lært neitt. Hann bara skáskaut sér milli þinghúss og stjórnarráðsins, heyrnarlaus og blindur með öllu á íslenskt samfélag. Svaraði nokkrum fréttamönnum með kunnum valdhroka og seildist svo í féð, áður en hann slökkti ljósin.
Það er ekki upphæðin sem er meginfréttamálið heldur prinsippið. Að hann hafi vogað sér að hegða síðasta starfsdegi sínum sem utanríkisráðherra með þessum hætti er eiginlega af þeirri stærðargráðu að manni verður orða vant. Þetta er sami ráðherrann og sleit sambandi við ESB í blóra við kosningaloforð meitihluta þeirra sem skipuðu ríkisstjórn með einu illa skrifuðu bréfi og leiddi til fjöldamótmæla fyrir einu ári. Þetta er maðurinn sem varði sinn foringja, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fram í rauðan dauðann uns hann féll sjálfur á eigið spjót. Þetta er maðurinn sem enn er með ráðherravald í ríkisstjórn sem hefur ekkert umboð til starfa frá fólkinu í landinu. Þetta er maðurinn sem annar þingmaður hefur efttirfarandi orð um vegna skúffufjármálsins: \"Svona gripdeildir á síðustu metrunum sýna auðvitað að Gunnar Bragi telur sig eiga einhverskonar rétt á að útdeila þessum fjármunum almennings í skiptum fyrir stuðning síðar.\"
Bíddu, hægan, hægan. Er Róbert Marshall, þingmaður, höfundur þessara orða að ofan, að segja að Gunnar Bragi Sveinsson hafi grímulaust nýtt sér skattfé frá okkur almenningi til að kaupa sér áframhaldandi völd í næstu kosningum?
Er svo komið fyrir okkar samfélagi að við ætlum að leyfa þeirri staðhæfingu að lifa ósvarað?
Þegar frá líður spái ég að fréttin um skúffufé Gunnars Braga og hvernig hann ráðstafaði því á síðasta starfsdegi sínum í utanríkisráðuneytinu verði greind sem kornið sem fyllti mælinn og varð til þess að boðað var til neyðarkosninga vorið 2016.
Björn Þorláksson.