Í hjarta miðborgarinnar í gullfallegu húsi við Óðinsgötu 1, leynist yndislegt kaffihús og smávöruverslun sem nærir bæði hjarta og sál. Kaffihúsið sem um ræðir er heilsuhofið Systrasamlagið. Þar er hægt er að fá lífrænt og hollt góðgæti eins og gæða kaffi, te, heilsudrykki, samlokur og kökur svo fátt sé nefnt. Þarna er matur og munúð í forgrunni og mörg vel geymd leyndarmál þegar kemur að því að fá sér heita og ljúffenga drykki sem eru góðir fyrir sálina.
Leggja áherslu á eiturefnalausan lífstíl
Í þættinum Matur & Heimili heimsóttum við systurnar Jóhönnu og Guðrúnu Kristjánsdætur sem eru stofnendur og eigendur Systrasamlagsins og frumkvöðlar á kaffihúsi af þessari gerð. „Þegar við systurnar settum Systrasamlagið á laggirnir var það byggt á þeirri hugsjón að víkka út hugmyndina um heilsubúð og færa nær almenningi. Hafa andann ávallt með í efninu,“ segja þær systur Jóhanna og Guðrún. Þær tóku strax þá stefnu að bjóða ekki eingöngu upp á holla og góða fæðu, lífrænt kaffi og drykki heldur líka sölu á fallegum, lífrænum yoga fatnaði og vörum og kakóinu sem enginn stenst. „Við leggjum áherslu á eiturefnalausan lífstíl og það á við allar okkar vörur,“ segja þær systur og teljast þær til frumkvöðla á þessu sviði.
Jóhanna og Guðrún Kristjánsdætur stofnendur og eigendur Systrasamlagsins.
Drykkurinn sem laðar sálina að
Við fengum þær systur til að deila með okkur uppskriftinni af einum af vinsælasta heita drykknum sem nærir líkama og sál. „Gullin túrmerik latte er sá drykkur sem kemur flestum í opna skjöldu en þar eru ólík brögð eru leidd saman með himneskri útkomu,“ segir Guðrún og nefnir jafnframt að þeir sem smakki þennan komi aftur og aftur og taki drykkinn ástfóstri. Hér er uppskriftin komin.
Gullin túrmerik latte
1 tsk. lífrænt túrmerik duft
½ tsk. lífrænt kakóduft
¼ tsk. lífrænar kardimommur
Nokkur korn pippali (svarti langi piparinn) eða svartur pipar
½ tsk. kakósmjör (má líka vera kókosolía eða önnur bragðgóð olía)
150 ml jurtamjólk
Blandið öllum kryddunum vel saman. Setið í pott ásamt um það bil 150 ml af jurtamólk og flóið, það er að segja hitið að suðu. Líka hægt að nota flóara á kaffivél, ef þið eigið.
Ef þið eruð með góða jurtamjólk, mælum með möndlumjólk, sem er sæt frá náttúrunnar hendi er óþarfi að nota sætu. Annars er eðal að bæta við góðu hunangi. Olían er mikilvæg því hún gefur þessum eðaldrykk alveg sérstaka mýkt.
Njótið í hugguleg heitum.