Náttfara rak í rogastans þegar hann hlustaði á Gunnlaug Sigurmundsson, föður forsætisráðherrans, tjá sig á aðalfundi VÍS í síðustu viku. Þingmaðurinn fyrrverandi var mjög æstur og við það að tapa sér í ræðustól. Margir fundarmanna töldu að hann hefði nánast orðið sér til skammar. Alla vega ekki aukið virðingu sína í þessum hópi.
Auðvitað er mikil vanlíðan í fjölskyldu forsætisráðherrans um þessar mundir vegna þeirra uppljóstrana um Tortólaeignir forsætisráðherrahjónanna sem Sigmundur Davíð hefur ekki séð ástæðu til að gera þingi eða þjóð grein fyrir fram til þessa. Frúin lét frá sér fara upplýsingar þegar ljóst var að Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður var kominn á sporið í samstarfi við alþjóðlega fjölmiðlamenn sem vinna við að fletta ofan af misjöfnum gjörningum fræga fólksins.
Sá mikli mótbyr sem sonur Gunnlaugs og Framsóknarflokkurinn mætir nú afsakar ekki dónalega framkomu hans á aðalfundi fyrirtækis úti í bæ.
Gunnlaugur Sigurmundsson gagnrýndi lífeyrissjóði meðal hluthafa í VíS harkalega vegna þess að þeir hvöttu stjórn félagsins til að fara hóflegar í arðgreiðslur en tillaga þeirra til aðalfundar gerði ráð fyrir. Honum þótti einnig óviðeigandi að lífeyrissjóðir, sem eru stærstu hluthafar VÍS, væru að styðja fólk í stjórn félagsins. Mátti skilja á honum að betra væri að einkafjárfestar með litla hluti röðuðu sér í stjórnina en ekki fulltrúar stóru hluthafanna. Gunnlaugur virðist ekki ennþá skilja að peningar hluthafa virka alveg eins í hlutafélagi hvort heldur þeir koma frá einstaklingum, félögum, lífeyrissjóðum, verkalýðsfélögum eða þá ríkinu. Hlutafé er alltaf hlutafé.
Náttfari sat nálægt gömlum lífeyrissjóðamönnum sem hvísluðu um það sín á milli að Gunnlaugur Sigurmundsson ætti að hugsa hlýlegar til lífeyrissjóðanna í ljósi sögunnar. Þegar hann var framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands, sem var m.a. í eigu íslenskra lífeyrissjóða og hann þar af leiðandi starfandi í skjóli þeirra, þá hittist svo vel á að hann gat keypt fyrirtækið Kögun af Þróunarfélaginu á mjög hagstæðu verði. Skömmu síðar kom á daginn að verkefni Kögunar fóru mjög vaxandi vegna þjónustu við bandaríska herinn og því jókst verðmæti félagsins til mikilla muna.
Auðvitað gat Gunnlaugur Sigurmundsson ekki séð þessa þróun fyrir. Hann var bara svona heppinn að hitta á að kaupa Kögun af því félagi sem hann stýrði fyrir fjölda hluthafa alveg á hárréttum tíma. Engum dytti í hug að væna hann um að hafa búið yfir innherjaupplýsingum. Hann var bara svona heppinn.
Kögun lagði grunn að fjárhagslegu veldi Gunnlaugs Sigurmundssonar en hann seldi félagið á hárréttum tíma skömmu fyrir hrun inn í samstæðu á vegum Jóns Ásgeirs. Eftir það er hann talinn vera milljarðamæringur.
Lífeyrissjóðirnir voru meðal hluthafa í Þróunarfélagi Íslands sem lagði grunn að fjárhagslegu veldi Gunnlaugs. Hann ætti að muna það í stað þess að ráðast á þá með ómálefnalegum dylgjum.
Auðvitað verður að virða honum til vorkunnar að spennustigið í fjölskyldunni vegna Tortólauppljóstrunar er vitanlega afar hátt þessa dagana.
En lífsreyndur maður verður samt að kunna að hemja sig.