Guðrún Harpa Heimisdóttir, formaður Hugarfars, félags fólks með ákominn heilaskaða, segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að um 2.000 manns hljóti höfuðáverka árlega á Íslandi og að um 300 þeirra glími við langvarandi afleiðingar og jafnvel fötlun í kjölfarið.
Ákominn heilaskaði er skaði sem einstaklingur verður fyrir eftir fæðingu vegna áverka. Guðrún Harpa segir verulegan skort á úrræðum fyrir fólk sem hefur orðið fyrir heilaskaða og telur mikla vankanta á greiningarferli fólks sem hefur hlotið slíkan skaða. Hún segir auk þess töluverðan fjölda fólks vera án greiningar.
Sjálf hlaut Guðrún Harpa heilaskaða árið 2012 eftir alvarlegt umferðarslys og segir skaðann hafa haft mikil áhrif á líf sitt og aðstandenda. Heilaskaðinn hafi haft áhrif á minni hennar, einbeitingu, framkvæmdasemi og valdið innsæisskorti og ákveðinni persónuleikatruflun. Þetta hafi haft mikil áhrif á tilfinningasvæði heilans og missti Guðrún Harpa einnig lyktarskyn, sjónsvið hennar breyttist og hreyfigeta skertist.
„En það sem hafði mest áhrif á mig var í raun úrræðaleysið eftir að ég lenti í þessu. Ég fékk ekki strax viðeigandi aðstoð,“ segir hún.
Guðrún Harpa bætir við að erfiðleikar hennar hafi fyrst byrjað eftir að hún útskrifaðist af endurhæfingarmiðstöðinni í Reykjalundi. Fjölskylda hennar hafi litla sem enga upplýsingagjöf fengið um „breytta einstaklinginn“ sem hafi komið heim og fór svo að hún leitaði sér aðstoðar á geðdeild eftir að hafa þróað með sér kvíða og þunglyndi. „Þetta er náttúrulega ekki sýnilegt. Þú lítur í spegil og sérð ekki að neitt sé að þér nema kannski að þú ert með ör eftir glerbrot.“
Guðrún Harpa segir að skortur á góðu greiningarferli sé kostnaðarsamur fyrir samfélagið og bendir á að margir sem hljóti heilaskaða lendi „í kerfinu“ í kjölfar úrræðaleysis. „Ef það er gripið inn í með góðri greiningu strax er kannski hægt að koma í veg fyrir svona. Fangelsin okkar eru full af fólki með heilaskaða. Þetta er alls staðar í kerfinu. Fólk lendir þarna af því það fær ekki viðeigandi langtíma endurhæfingu.“
Ráðning sérhæfðs starfsmanns og aukin eftirfylgni
Guðrún Harpa er hluti af starfshópi sem birti í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins tillögur um bætta þjónustu við einstaklinga með ákominn heilaskaða og fjölskyldur þeirra. Starfshópurinn var settur á fót sem viðbragð við ábendingum Hugarfars til heilbrigðisráðherra.
Starfshópurinn leggur til að sett verði á fót tveggja ára tilraunaverkefni til að meta umfang vandans með ráðningu sérhæfðs starfsmanns til að sjá um greiningarferli á heilaskaða á Landspítalanum. Einnig er lagt til að auka eftirfylgni og efla hópmeðferð fyrir fólk með heilaskaða sem sækir þjónustu í Reykjalundi. Þá er lagt til að fræðsla og forvarnir verði efldar og að komið verði á sérstöku „Höfuðhúsi“, stofnun sem veiti fyrsta stigs þjónustu fyrir heilaskaddaða.