Sigmundur Ernir Rúnarsson átti líflegt viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur á Fréttavaktinni í gær. Guðrún náði fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og hlaut 2.100 atkvæði. Vilhjálmur Árnason sóttist einnig eftir efsta sætinu en var 270 atkvæðum neðar en Guðrún. Á kjörskrá í Suðurkjördæmi eru um 45.000 kjósendur þannig að einungis 4,7 prósent kosningabærra manna í kjördæminu eru á bak við prófkjörssigur Guðrúnar.
Það merkilegasta sem fram kom í viðtali Sigmundar við Guðrúnu var að hún lýsti því yfir á skýran og ákveðinn hátt að hún sæktist eftir að gegna ráðherraembætti svo fremi að Sjálfstæðisflokkurinn ætti aðild að næstu ríkisstjórn. Þetta eru vitanlega tíðindi sem munu valda skjálfta á sumum stöðum í flokknum. Flest bendir til þess að næsta ríkisstjórn verði skipuð fjórum flokkum. Annað hvort heldur núverandi ríkisstjórn velli með því að taka Miðflokkinn inn sem fjórða stjórnarflokk eða þá verður um annars konar mynstur að ræða með fjórum flokkum en án Sjálfstæðisflokksins. Í núverandi ríkisstjórn hefur Sjálfstæðisflokkurinn fimm þingmenn, tvær konur og þrjá karla. Í þingflokknum eru að auki fjórir karlar og ein kona sem telja fram hjá sér gengið varðandi val á ráðherrum flokksins nú sem stendur.
Í fjögurra flokka ríkisstjórn fengi Sjálfstæðisflokkurinn væntanlega fjóra ráðherra þannig að þá fækkaði um einn. Miðað við kröfu Guðrúnar, strax eftir að ljóst er að hún muni leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi, þyrfti annar ráðherra til viðbótar að víkja fyrir henni. Væntanlega þyrfti Bjarni Benediktsson þá að velja á milli Þórdísar Kolbrúnar varaformanns og Áslaugar Örnu því önnur hvor þeirra þyrfti þá væntanlega að víkja.
Segja má að það sé alls ekki óeðlilegt að Guðrún Hafsteinsdóttir geri kröfu um ráðherraembætti eins og aðrir oddvitar allra lista flokksins hafa gert. Nú er Suðurlandskjördæmi eina kjördæmið sem Sjálfstæðisflokkurinn velur ekki ráðherra úr. Það hefur valdið megnri óánægju, ekki einungis hjá Páli Magnússyni núverandi leiðtoga flokksins í kjördæminu, heldur einnig hjá fjölda flokksmanna. Vert er að hafa í huga að staða flokksins er óvenjulega veik í kjördæminu um þessar mundir þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á nú ekki aðild að stjórnun stærstu sveitarfélaganna og er í minnihluta í Reykjanesbæ, Árborg og Vestmannaeyjum eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar en flokkurinn tapaði þá stöðu sinni í öllum þessum stærstu sveitarfélögum kjördæmisins. Það var mikið áfall.
Verði Sjálfstæðisflokkurinn í næstu ríkisstjórn og haldi iðnaðar-og ferðamálaráðuneytinu hlyti að vera sjálfgefið að Guðrún yrði fyrir valinu sem ráðherra ráðuneytisins í ljósi þess að hún hefur starfað í iðnaði í aldarfjórðung og átt sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins í tíu ár, þar af formaður þessara stærstu atvinnurekendasamtaka landsins í sex ár.
Það væri hreinn dónaskapur að ganga fram hjá henni í ljósi þessarar miklu reynslu. Sú niðurstaða yrði að sjálfsögðu ekki sársaukalaus fyrir þann ráðherra sem þyrfti að víkja fyrir Guðrúnu, því alla þingmenn dreymir um að vera ráðherrar.
Enn á eftir að kjósa og þá getur skipt máli hvernig einstök kjördæmi koma út og ekki síður hver verður árangur allra flokkanna sem nú bjóða fram. Það er heldur ekkert náttúrulögmál að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn. Það er reyndar mikið kallað eftir því í þjóðfélaginu núna að Sjálfstæðisflokkurinn fái góð hvíld frá landsstjórninni.
- Ólafur Arnarson