Guðni gleymdi lífeyrissjóðunum og dró rangar ályktanir

Flest var vel heppnað í nýjársávarpi forseta Íslands eins og við mátti búast.

 

En Guðna Th. Jóhannessyni fataðist flugið þegar hann ræddi um sparnað Íslendinga og sagði að við mættum taka Norðmenn okkur til fyrirmyndar varðandi sjóðasöfnun en þeir hafa komið sér upp öflugum olíusjóði eins og kunnugt er. Guðni talaði hins vegar ekkert um íslensku lífeyrissjóðina sem eiga nú eignir í sjóðum upp á 4.000 milljarða króna. Lífeyrissjóðir okkar eru svo öflugir saman borið við önnur lönd að þeir eru í fremstu röð. Ísland, Sviss og Holland skara fram úr þegar kemur að stöðu lífeyrissjóða, t.d. hvað varðar hlutfall af landsframleiðslu.

 

Íslenskir lífeyrissjóðir eru okkur álíka mikilvægir og norski olíusjóðurinn er Norðmönnum. Við þurfum ekkert að taka okkur þá til fyrirmyndar hvað sjóðasöfnun varðar. Þeir gera vel á sínum vettvangi og við gerum ekki síður vel hjá okkur, þökk sé lífeyrissjóðunum. Á síðasta ári bættust 300 milljarðar við sparnað Íslendinga gegnum lífeyrissjóðina. Forsetinn hefði alveg mátt muna eftir því í annars prýðilegu ávarpi sínu.

 

Forystumenn íslenskra lífeyrissjóða eru ekki nógu duglegir að minna á allt hið jákvæða sem lífeyrissjóðir hafa gert á Íslandi. Þeir eru uppistaða sparnaðar landsmanna. Þeir hafa verið byggðir upp og efldir jafnt og þétt frá því upp úr miðri síðustu öld. Í Hruninu féll allt fjármálakerfi landsmanna – nema lífeyrissjóðirnir. Þeir urðu fyrir tjóni sem nam um 20% af eignum þeirra en bankakerfið hrundi til grunna, einnig sparisjóðirnir, vátryggingafélögin og sjálfur Seðlabanki Íslands sem tapaði öllu eigin fé sínu vegna rangra ákvarðana stjórnenda. Lífeyrissjóðir landsmanna gegndu lykilhlutverki í endurreisn þjóðfélagsins eftir Hrun. Það mætti minna oftar á það.

 

Forsetinn fagnaði því sérstaklega á ávarpi sínu að nú væri verið að koma auðlindasjóði á fót en stjórnmálamenn hafa nokkuð reynt að slá um sig með tali um slíkan sjóð. En hvað er þar á ferðinni? Trúlega ekki neitt sem skiptir máli. Ætlunin er að staðsetja einhverjar tekjur ríkisins með öðrum hætti en verið hefur. Ekki verða þó neinar nýjar tekjur til, ekki er um neina verðmætasköpun að ræða. Sem dæmi má nefna að arður af Landsvirkjun rennur beint í ríkissjóð í dag og eru þeir fjármunir nýttir í þágu þjóðarheildarinnar í gengum ríkissjóð. Nú á að taka sama arðinn, leggja hann í sérstakan “auðlindasjóð” og nota fjármuni úr þeim sjóði til að efla “innviðauppbyggingu” og nýsköpun. Í stað þess að greiða þessar tekjur beint inn í ríkissjóð og þaðan út til eflingar nýsköpunar og innviða, þá á að millilenda tekjunum í sérstökum sjóði.

 

Engin ný verðmæti verða til við þetta. Eina sem gerist að búin verður til enn ein ríkisstofnunin, sjóður sem kostar sitt í rekstri og síðast en skki síst hefur sérstaka stjórn. Þá geta ráðherrar dundað við að velja til setu í slíkri stjórn einhverja ættingja sína, vini eða fallna félaga sem hafa dottið út af þingi!  Sama gamla sagan. Sú var tíð að Sjálfstæðisflokkurinn barðist gegn “sjóðasukki”. Það þarf víst ekki lengur.

 

Vont að okkar ágæti forseti láti blekkjast af sýndarmennsku stjórnmálamanna. Hann þarf að vera betur á verði gagnvart þeim

 

Rtá.