Snúningur hefur orðið í baráttunni um Bessastaði og þar með kröfu fólksins um lýðræðilegar umbætur á þessu skrýtna skeri okkar.
Guðni Th. Jóhannesson sem talið var að myndi tilkynna í dag að hann myndi ekki fara fram til forseta sendir frá sér nokkuð vígreifan status á facebook í morgun. Þar segir Guðni:
\"Gleðilegt sumar! Allir út í göngutúr, hitta vini, draga að sér ferskt loft. Það er jú það sem gefur kraft og gerir okkur bjartsýn.
Veit ég var búinn að lofa að koma undan feldi í sumarbyrjun en það fyrsta sem ég sá þegar ég gægðist út var Ólafur Ragnar Grímsson. Þarf að hugsa málið aðeins lengur, það hljóta allir að skilja.\"
Það fyrsta sem Guðni sá í sumarbyrjun var Ólafur Ragnar Grímsson! Þvílík sumarkoma. En samt hugsar hann málið áfram. Ekki af baki dottinn. Guðni er íþróttamaður, hann keppti í handbolta, hann er keppnismaður og þjóðin elskar hann. Í viðtali við DV í dag minnist hann á ósannindi Ólafs Ragnars og hjólar í hann af meiri krafti en áður en dæmi um. Og svo fylgir statusinn á facebook.
Ákall er þegar komið fram á síðu Pírata að Andri Snær hætti við sitt framboð til að Guðni eigi meiri möguleika á að fella ÓRG. Píratar vita vel að snúningur forsetans á að vilja ríkja í 24 ár er bein andstaða við Pírata og vilja til breytinga á stjórnarskrá. Því er þetta nokkuð merkilegur snúningur.
Þeir sem vilja breytingar munu ekki kjósa ÓRG, þeir sem vilja engar breytingar, einkum kjósendur valdaflokkanna gömlu, munu kjósa ÓRG. Meðal annars til að ekki verði umbætur á stjórnarskrá. Fyrir þær breytingar stendur Andri Snær en hans framboð geldur fyrir umdeilanleika sem ekki verður fundinn í tilviki Guðna Th.
Baráttunni um Bessastaði er hvergi nærri lokið. Vera kann að úrslitin eigi eftir að verða eftirminnilegri en nokkur átti von á í vikubyrjun. En afstaða Guðna til stjórnarskrárbreytinga gæti þar valdið miklu um framhaldið.
Björn Þorláksson