Handboltafárinu 2023 er lokið með brotlendingu eftir að Svíar unnu öruggan sigur á strákunum okkar á föstudagskvöldið. Sitthvað fleira en Svíaleikurinn hefur farið úrskeiðis á heimsmeistaramótinu nú í janúar sem einhverjir töldu að Ísland gæti unnið. Líkast til var það aldrei raunhæft þó að við eigum góðu liði á að skipa, reyndar miklu betra en hægt er að ætlast til af 370.000 manna dvergþjóð eins og okkar. Íslendingar eiga auðvitað að horfast í augu við það og vera þakklátir.
Margir telja þó að við gætum náð lengra en raun ber vitni með því að gera nú tilteknar breytingar. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari hefur átt glæsilegan feril og náð gríðarlegum árangri sem þjálfari, bæði með landslið Íslands og einnig erlendis þar sem toppnum var náð þegar hann stýrði liði Danmerkur til sigurs á Ólympíuleikum.
Guðmundur var þjálfarinn sem stýrði liði Íslands til hinna frægu silfurverðlauna árið 2008. Hann hefur þjálfað landslið Íslands árin 2001 til 2004, svo aftur 2008 til 2012 og loks núna frá 2018. Hann hefur verið landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í áratug. Það er langur tími og allt hefur sinn tíma.
Guðmundur er 62 ára að aldri og nú er kominn tími til að yngja upp í brúnni. Guðmundur getur gengið af velli sem landsliðsþjálfari með fullri reisn. Tímasetningar skipta miklu máli, bæði varðandi upphaf og starfslok. Það gildir sama í íþróttum og í stjórnun fyrirtækja og stofnana, að ekki sé talað um stjórnmál. Vandi margra stjórnmálamanna er að sækjast of lengi eftir völdum og enda sem misheppnaðir fyrir bragðið. Tími Guðmundar er kominn. Nú á hann að hætta.
Hver á þá að taka við þjálfun landsliðsins? Einhver úr hópi afreksmanna í íslenskum handbolta. Þá koma í hugann nöfn eins og Patrekur Jóhannesson, Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Dagur Sigurðsson. Vafalaust mætti nefna fleiri til sögunnar. Allir þessir menn hafa mikla reynslu af handbolta og eiga glæsilegan feril að baki, bæði með félagsliðum hér heima, í atvinnumennsku erlendis og með landsliði. Þeir eru allir í hópi leikjahæstu og markahæstu leikmanna íslenska landsliðsins frá upphafi.
Dagur Sigurðsson á einkar glæsilegan feril að baki. Hann er margfaldur Íslands- og bikarmeistari með Val allt frá táningsaldri. Hann á 215 landsleiki að baki og var lengi fyrirliði bæði Vals og landsliðsins. Síðan hélt hann utan og gerðist atvinnumaður í handbolta, fyrst hjá þýska liðinu Wuppertal. Þjálfaraferill hans er glæsilegur, en hann hefur bæði þjálfað erlend félagslið og landslið Austurríkis og síðar Þýskalands sem hann leiddi til gullverðlauna á EM 2016 og einnig til bronsverðlauna.
Dagur tók við þjálfun japanska landsliðsins árið 2017 og gegnir þeirri stöðu enn. Í árslok 2016 var Dagur Sigurðsson kjörinn þjálfari ársins af íslenskum íþróttafréttamönnum á hátíðinni Íþróttamaður ársins. Aðrir sem tilnefndir voru þá eru Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Guðmundsson.
Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að sennilega sé Dagur Sigurðsson launahæsti handboltaþjálfari í heimi um þessar mundir. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins námu árstekjur fyrirtækis hans árið 2020 alls 110 milljónum króna. Hann hefur einnig tekjur af fyrirlestrahaldi, en Dagur hefur verið eftirsóttur fyrirlesari um stjórnun og forystu eftir að hann gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum og hefur meðal annars unnið fyrir stórfyrirtæki á borð við McKinsey, Daimler, Telekom og Allianz. Hann er 49 ára að aldri, ungur og frískur en samt hokinn af reynslu.
Dagur Sigurðsson er vafalaust besti kosturinn til að taka við íslenska landsliðinu. Óvíst er að hann vilji yfirgefa Japan og stóra sviðið í alþjóðlegum handknattleik til að taka forystuna hér heima. Þó hlýtur að freista mjög að fá að stýra íslenska landsliðinu, sem sjaldan eða aldrei hefur verið betur mannað og er þá á engan hallað.
- Ólafur Arnarson.