Þó forsetakosningarnar hafi ekki verið spennandi og farið alveg eins og skoðanakannanir höfðu sagt fyrir um, þá er engu að síður hægt að koma auga á mjög áhugaverðar niðurstöður og vísbendingar vegna þeirra mála sem Guðmundur Franklín tefldi fram og fékk einungis 7,8 prósent stuðning við.
Guðmundur gerði mikið veður út af þriðja orkupakkanum sem afgreiddur var á Alþingi í fyrra. Hann taldi að með þeirri afgreiðslu hafi þjóðin verið svikin. Kjósendur fengu tækifæri til að mótmæla með því að kjósa Guðmund. Fáir nýttu sér það.
Guðmundur ólmaðist mikið út af ESB sem hann telur hinn versta félagsskap sem verið sé að koma Íslendingum inn í smátt og smátt. Kjósendur höfðu nú tækifæri til að taka undir þessi sjónarmið og mótmæla þessari ætluðu þróun. Fáir nýttu sér það.
Guðmundur hélt því fram að stjórnmálaöfl ynnu að því að afhenda útlendingum auðlindir þjóðarinnar og gefa lykilfyrirtæki eins og Landsvirkjun og ríkisbankana. Með því að styðja Guðmund höfðu kjósendur tækifæri til að stöðva það samkvæmt málflutningi hans. Fáir kjósendur nýttu sér það.
Skoðanakannanir sýndu hvaðan það litla fylgi sem Guðmundur hlaut var upprunnið.
Það kom einkum frá kjósendum Miðflokksins og einnig frá Flokki fólksins og Sósíalistaflokki Gunnars Smára Egilssonar. Ljóst er að Guðmundur Franklín Jónsson á heima í Miðflokknum. Hann ætti að bjóða sig fram á þeim vettvangi í næstu Alþingiskosningum enda færi vel á því. Guðmundur yrði til að styrkja Miðflokkinn og hann myndi sóma sér vel á þeim vettvangi með hinum popúlistunum.
Þeir gætu þá fjallað um hugðarefni Guðmundar sem fyrr voru nefnd; verið á móti þriðja orkupakkanum sem var afgreiddur í fyrra, ólmast á móti ESB, varað við útlendingum og útlöndum og staðið vörð um fortíðina.
Framboð Guðmundar var ekki til einskis þó það hafi verið vonlaust frá upphafi því kjósendur svöruðu í leiðinni nokkrum mikilvægum spurningum.
Og síðast en ekki síst: Guðni forseti hefur aldrei verið sterkari en nú!