Margir klóruðu sér í hausnum í síðustu viku þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, skipaði fjandvin sinn, Björn Bjarnason, formann nefndar til að gera úttekt á aðild Íslands að EES. Þeir sem þekkja til í Sjálfstæðisflokknum vita að milli þeirra hefur ríkt djúp gagnkvæm andúð allt frá því að Björn tapaði fyrir Gulla í prófkjöri flokksins árið 2006. Þeir háðu harða baráttu um annað sætið í Reykjavík en efsta sætið skipaði Geir Haarde formaður flokksins. Björn hefur aldrei sætt sig við að tapa þessum slag fyrir Guðlaugi Þór sem með sigrinum steig fram fyrir Björn í valdastiga flokksins. Segja má að þessi ósigur Björns hafi markað upphafið að pólitískum endalokum hans sem hann hefur ekki sætt sig við. Björn hefur unnið gegn Guðlaugi í flokknum alveg frá þessu prófkjöri en það hefur litlu breytt.
En hvers vegna skipar utanríkisráðherra fjandvin sinn í þetta verkefni? Menn hafa velt því fyrir sér frá því það var tilkynnt í síðustu viku og átt erfitt með að koma niðurstöðunni heim og saman. Fyrst var talið að Bjarni Benediktsson hafi lagt að Guðlaugi að gera þetta vegna þrýstings úr fjölskyldunni en þeir Björn og Bjarni eru frændur eins og kunnugt er. Nú er komið á daginn að Bjarni kom hvergi nærri og mun hafa orðið jafnhissa á þessu og aðrir. Hér er á ferðinni þaulhugsað útspil ráðherrans.
Guðlaugur Þór hefur verið undir miklum þrýstingi frá harðlínuöflum í Sjálfstæðisflokknum sem hatast við Evrópu, þar með EES, ESB, evru og Brussel. Þessi hópur á sér samastað í Heimsýn og inni á ritstjórn Morgunblaðsins. Harðlínumenn hafa lagt að Guðlaugi Þór að koma fram með tillögur í þinginu um að Ísland gangi úr EES. Guðlaugur Þór veit að þetta mun ekki gerast og máli af þessu tagi yrði ekki komið í gegnum þingið. Málatilbúnaður af þessu tagi gæti hreinlega fellt ríkisstjórnina því meðal stuðningsmanna hennar í þinginu eru nógu margir sem eru ekki svo galnir að styðja úrsögn Íslands úr EES. Þetta mál gæti sprengt allt í loft upp. Næg eru samt vandræðin á stjórnarheimilinu.
Ráðherra veit að Björn Bjarnason mun leggja til að Ísland segi sig úr EES. Hann þyrfti þess vegna ekki að leggjast í neinar rannsóknir til að komast að þeirri niðurstöðu. Hann gæti þess vegna verið tilbúin með niðurstöðuna á morgun. Ráðherra veit að tillaga nefndarinnar sem gengi út á úrsögn Íslands úr EES yrði skotin í kaf jafnt á Alþingi sem út um allt þjóðfélagið. Heimsýn, Mogginn og bændamafían munu ekki geta komið í veg fyrir það. Björn Bjarnason mun tala fyrir úrsögn og hann verður undir að nýju og mun standa uppi sigraður. Endanlega sigraður. Þar með losnar Guðlaugur Þór algerlega við hann úr liði andstæðinga sinna.
Þær Bergþóra Halldórsdóttir og Kristrún Heimisdóttir voru skipaðar með Birni í þessa nefnd. Þær munu báðar hafa gengið hart eftir því að vera skipaðar í embætti innan utanríkisþjónustunna. Með því að vera þjálar í nefndarstarfinu er talið að líkur aukist á því að Guðlaugur Þór bjóði þeim stöður í einhverjum af sendiráðum Íslands erlendis – svo fremi að hann verði enn utanríkisráðherra og ríkisstjórnin endist nógu lengi til að svo megi verða.
Rtá.