Um helgar er upplagt að gera vel við sig og fá sér morgunverð sem gleður bæði auga og bragðlauka. Það má gera sér dagamun um helgar og nostra aðeins við morgunverðinn. Jóhann Gunnar Arnarsson danskennari og bötler nýtur þess að framreiða sælkerakræsingar þegar þau hjónin gera sér dagamun og eitt af uppáhalds í morgunverð sé Egg Benedikt.
„Egg Benedikt er alveg upplagt að gera ef maður á afgang af hamborgarhrygg, reyktum laxi, nú eða þá bara venjulega skinku eða beikon Ég nota alltaf KEA hamborgarhrygg, ef ég hef val. Ef maður notar eldaðan hamborgarhrygg, þá er gott að smella honum á pönnu í örstutta stund til að ná upp hita í kjötinu. Fallegt er að stinga kjötið út í hring og leggja svo ofan á fallegt súrdeigsbrauð, sem líka hefur verið skorið í hring. Gott er að steikja brauðið aðeins upp úr smjöri, vegna þess að smjör gerir allt svo miklu betra. Svo er hleypta eggið sett ofan á þetta. Hefðbundið væri að gera Hollandaise sósu og hella yfir. Ef Hollandais sósa er gerð, þá er líka upplagt að bæta við soðnum aspas, til að gera meira úr máltíðinni.“ Jóhann segir að stundum geri hann nýstárlegar dressingar með réttinum og um í dögurði hafi hann meðal annars prófað Wasabi dressingum úr fersku íslensku Wasabi sem bragð er af.
Það sem þarf fyrir hið klassíska Egg Benedikt:
Brauð að eigin vali.
Skinku, beikon eða hamborgarhrygg eftir smekk, má sleppa og setja grænmeti eða lax í staðinn.
Hollandaise sósu.
Egg, eftir fjölda sem á að laga.
Hollandaise sósa
2 eggjarauður
1 tsk. kalt vatn
1 tsk. sítrónusafi, hvítvín eða appelsínusafi (þá heitir sósan Maltaise)
200 g brætt smjör
salt og pipar eftir smekk
Eggjarauðurnar, vatnið og sítrónusafinn/hvítvínið/appelsínusafinn sett í skál, til dæmis í hrærivélaskál og þeytt vel. Þá er smjörið brætt og hellt í mjórri bunu saman við eggin, á meðan hrært er í til dæmis með handþeytara eða töfrasprota, þar til sósan er tilbúin.
Hleypt egg (poacherað egg)
Fyrir 4
4 egg
2 lítra vatn
2 msk. edik
Hita vatn að suðu.Bæta við 1 matskeið af ediki fyrir hvern lítra af vatni. Brjóta egg í bolla eða glas. Þegar suðan er komin upp, er potturinn tekinn af hellunni og egginu hellt varlega út í vatnið. Sumir kom smá snúningi á vatnið með sleif áður en eggið er sett út í, þannig að eggið lokist af sjálfu sér. Það er líka hægt að setja þetta bara beint út í og nota sleifina til að koma eggjahvítunni á sinn stað og hylja eggið. Hafa eggið í vatninu í 3-5 mínútur, eftir því hversu mikið þið viljið eggið soðið. Mikilvægt að vatnið sjóði ekki á meðan þetta er gert. Þegar eggið er tilbúið er það tekið upp með gataspaða og sett á pappír til þerris.
Þetta er síðan sett saman á fallegan hátt, fyrst undirlagið, brauðmetið sem valið er, síðan kjötmetið, má auðvita sleppa og setja í staðinn spínat eða avókadó, hleypt egg og loks toppað með Hollandaise sósunni. Berið fram á fallegan og aðlaðandi hátt og vert er að skreyta með kryddjurtum til dæmis dilli eða því sem leynist í ísskápnum.
Njótið vel.