Guðdómlega ljúffengur Guðrúnar- marengsinn slær í gegn

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir hefur alla tíð haft dálæti af því að dunda í eldhúsinu og finnst það vera ákveðin hugleiðsla að fá að prófa sig áfram með hinar ýmsu tilraunir. Guðrún heldur úti bakstur og matarsíðunni Döðlur & smjör ásamt því að vera virk á instagram - @dodlurogsmjor. „Það að fara af stað með síðu hefur blundað lengi í mér og ég sé ekki eftir því í dag - Svo margt ótrúlega skemmtilegt sem hefur komið í tengslum við hana, samskiptin við fylgjendur standa helst upp úr“, segir Guðrún.

M&H Guðrún Ýr - páskar 2021.jpeg

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir hefur dálæti af því að dunda í eldhúsinu og er iðin við að deila gómsætum uppskriftum á síðunni sinni Döðlur & smjör./Myndir aðsendar.

Búin að brjóta hefðina með páskaeggið

Þegar kemur að matarhefðum og venjum á páskunum hjá Guðrúnu er ekkert fastmótað og fjölbreytni í því hvað fjölskyldan gerir að hverju sinni. „Páskarnir eru ótrúlega hefða lítill tími fyrir mig, hverjir páskar eru ólíkir á mínum bæ. Hvort sem þeim er eytt erlendis, Á aldrei fór ég suður, í sumarbústað eða bara í huggulegheitum heima. Ég er líkt og flestir alin upp við þá hefð að opna páskaeggið mitt á páskadagsmorgun en ég er meira segja búin að brjóta þá hefð fyrir mörgum árum.“ Í Guðrúnar huga er það mikilvægast að vera í góðum félagsskap, slappa af og borða góðan mat um páskana.

Forfallinn lakkrís fíkill

Guðrún elskar páskaegg og á svo sannarlega sitt uppáhalds páskaegg. „Ég er forfallinn lakkrís fíkill, svo eggin sem innihalda lakkrís í skelinni fá vinninginn, Drauma eggið frá Freyju og Fyllti lakkrísinn frá Góu.“ Áttu þér þinn uppáhalds málshátt? „Gaman að segja að við tókum forskot á páskana um daginn og borðuðum bröns saman fjölskyldan og opnuðum lítil páskaegg. Allir fengu sinn hefðbundna málshátt en í mínu eggi leynast tveir málshættir sem var mjög viðeigandi þar sem ég gengin 6 mánuði á leið einn á mann fyrir okkur stelpurnar. En hvað stóð á þeim er ég löngu búin að gleyma.“ Guðrún segist ávallt föndra eitthvað fyrir páskana, mismikið þó. „Mér þykir ótrúlega ljúft að dunda eitthvað smá fyrir páskana hverju sinni, mála egg með krökkunum eða eitthvað skemmtilegt páskaskraut.“

Fyllingin sem slær í gegn

Við fengum Guðrún til að deila með okkur einni af sinni uppáhalds tertu sem henni finnst passa ákaflega vel um páskana. „Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af mínum uppáhalds marengstertu, hún á alltaf við, dásamleg um páskana, afmæli eða við öll tilefni sem við viljum gera vel við okkur. Það eru komin mörg ár síðan ég byrjaði að ég gera þennan marengs, fyrir mér snýst þetta alltaf um fyllingarnar og ég setti þessa fyllingu saman og hún sló svona gífurlega í gegn og hefur þetta verið Guðrúnar-marengsinn sem ég geri fyrir flest tilefni og passar svo vel í dögurðinn eða sem desert á páskadag.“

M&H Guðrúnar marengssinn 1.jpeg

Guðrúnar - marengsinn

Marengsbotnar

3 eggjahvítur

150 g púðursykur

80 g sykur

Stillið ofn á 150°C blástur. Setjið öll hráefnin saman í hreina hrærivélarskál og þeytið þangað til að marengsinn er orðinn stífur, alveg stífur.

Gott er að teikna hring á bökunarpappír til að styðjast við, fyrir þetta magn 20-25 cm hring - Gott að nota matardisk eða það sem er manni nálægt.

Ef þið hyggist gera efri botninn líkt og sjá má á myndum, setjið rúmlega helminginn af marengsinum í sprautupoka með rósar stút (2D) og sprautið rósum óreglulega í hring, fyllið síðan upp með dropa af marengs.

Takið restina af marengsinum og smyrjið á bökunarpappírinn og styðjist við hringformið.

Bakið í 40 mínútur og ekki opna ofninn meðan marengsinn bakast. Opnið ofninn og leyfið honum að hvíla eftir bakstur.

Fylling

400 ml rjómi

100 g þristur

8-10 jarðaber

Karamellusósa

Þeytið rjómann, skerið niður þrista og jarðaber, tiltölulega smátt. Ef þið útbúið karamellusósu er gott að gera það áður svo hún bræði ekki rjómann, en leyndarmálið mitt er að ég nota tilbúna sósu í þennan marengs, alltaf.

Samsetning

Setjið örlítinn rjóma á kökudiskinn og síðan fyrsta botninn, gert til að marengsinn sitji kyrr á disknum. Dreifið rjómanum yfir botninn, síðan þristum og jarðaberjum og loks vel af karamellusósu yfir allt. Takið þá efri marengsinn og tyllið ofan á.

Geymið í kæli þangað til að kakan er borin fram.