Helgarnar eru vel til þess fallnar að baka og bera fram ljúffengar kökur sem gleðja hjarta og sál. Brynja Dadda Sverrisdóttir ástríðubakari og handverkskona hefur mikið dálæti af matargerð, bakstri og ræktun grænmetis og matjurta leggur mikið upp úr því að baka og bjóða uppá kræsingar sem gleðja bæði hjarta og sál. „Sérstaklega hef ég unun af því að dvelja í eldhúsinu í sumarhúsinu okkar, Móbergi í Kjósinni,“ segir Brynja Dadda. Hún segir að þar fái hún innblástur fyrir baksturinn og njóti þess að töfra fram kræsingar sem fjölskyldan og gestir hreinlega missa sig yfir. Móbergið er griðastaður þeirra hjóna þar sem þau bæði njóta sín í ræktun, matargerð, bakstri og sköpun. En Brynja Dadda rekur meðal annars lítið fjölskyldufyrirtæki ásamt eiginmanni sínum Hafþóri, smíðaverkstæðið Hnyðju, þar sem Hafþór sérhæfir sig í að smíða íslenskt handverk og gjafavöru úr tré. Í Móberginu er Hafþór búinn að koma sér upp smíðaverkstæðinu Undirhlíð þar sem hjarta hans slær alla daga og ilmurinn úr eldhúsinu streymir þar inn, lokkandi þegar Brynja Dadda hlúir að því sem gleður hjarta og sál. Við fengum Brynju Döddu til að deila með okkur eini af hennar uppáhalds köku sem fólkið hennar getur ekki staðist og fellur ávallt í freistni. „Salthnetukakan er ein þeirra sem gestirnir umla yfir og geta hreinlega ekki hætt að snæða þegar þeir byrja,“segir Brynja Dadda og brosir sínu breiðasta.
Salthnetukaka Móbergs húsmóðurinnar
3 eggjahvítur
1 bolli sykur
1 tsk. lyftiduft
¾ bolli salthnetur
20 stk. Ritz kex (mulið)
Byrjið á því að hita ofninn í 175°C. Síðan eru eggjahvítur stífþeyttar með ¾ af sykrinum.
Blandið saman mulnu Ritz kexi, salthnetum, lyftidufti og rest af sykrinum. Hrærið varlega saman við. Smyrjið kringlótt form og gott er að strá smá hveiti yfir áður enn deigið er sett í. Bakið í um það bil 25 mínútur við 175°C hita.
Móbergsúkkulaði kremið
3 eggjarauður
60 g flórsykur
100 suðusúkkulaði
50 g smjör (íslenska smjörið klassíska er best).
Byrjið á því að þeytta eggjarauðurnar og flórsykurinn. Bræðið saman suðusúkkulaði og smjör og bætið síðan út í. Látið kólna aðeins áður en kremið er sett fyrir kökuna. Einnig er mjög gott að láta kökuna með kreminu kólna vel áður en hún er borin fram og skorin, þó svo að það sé freistandi að byrja strax enda guðdómlega ljúffeng. Þegar kakan er borin fram er upplagt að toppa hana með þeyttum rjóma.
*Allt hráefnið fæst í Bónus.
Brynja Dadda Sverrisdóttir nýtur sín til fulls í eldhúsinu í Móbergi í Kjósinni.