Í tilefni sjómannadagsins og helgarinnar sem framundan er smellpassar þessi guðdómlega Paella úr smiðju okkar dásamlegu Berglindar Hreiðars hjá Gotteri og gersemar. Berglind er svo hugmyndarík og djörf þegar kemur að eldunaraðferðum og hér gerir hún Paellu í draumapottinum í stað þess að gera hana á pönnu.
Stórsniðugt að nýta þennan gerðarlega og fallega pott frá Le Creuset þegar Paella er elduð og borin fram.Ljósmyndir Berglind Hreiðars.
„Paella er skemmtilegur réttur sem einkennir Spán í mínum huga, já, svona fyrir utan Sangriu. Ég hef í gegnum tíðina oft gert allt konar hrísgrjónarétti í Paellu líki sem hafa verið vinsælir á heimilinu en ákvað núna að reyna að gera þetta meira eins og á að gera þetta. Lillý & Roby vinir okkar kunna þetta upp á tíu eins og aðra spænska eða ítalska eldamennsku og fékk ég góða punkta hjá þeim. Paella er venjulega elduð í sérstakri pönnu en þar sem ég var að fá mér draumapottinn minn frá Le Creust mátti ég til með að prófa að elda þetta í honum. Úr varð dýrindis veisla með spænsku yfirbragði sem við kunnum öll að meta og þetta er tilvalinn réttur fyrir næsta matarboð,“ segir Berglind.
„Það má sannarlega leika sér með þau hráefni sem fara í pottinn en laukur, hvítlaukur og tómatar eru lykilatriði ásamt nóg af olíu og kryddum. Hér fyrir neðan finnið þið útfærslu frá mér en ég á svo sannarlega eftir að prófa þær fleiri.“
Paella að hætti Berglindar
Fyrir 6-8 manns
- 500 g risarækja
- 600 g kjúklingalundir
- 200 g Chorizo pylsa
- 1 rauð paprika
- 1 laukur
- 2 rifin hvítlauksrif
- 2 lúkur belgbaunir
- 1 dós hakkaðir tómatar (411 g)
- 500 g Arborio hrísgrjón
- 1200 ml vatn
- 2 msk. kjúklingakraftur
- Ólífuolía til steikingar
- Salt, pipar, paprikuduft
- 1 tsk. saffran
- Kóríander og sítróna ofan á í lokin (það má sleppa kóríander)
- Steikið risarækjuna upp úr ólífuolíu og vel af kryddum og geymið síðan á disk.
- Skerið kjúklingalundirnar niður og steikið upp úr ólífuolíu og kryddið vel, skerið Chorizo pylsuna einnig í teninga og bætið saman við kjúklinginn í lokin, geymið síðan hvorutveggja á disk.
- Setjið aftur vel af ólífuolíu í pottinn, skerið papriku í strimla og saxið laukinn. Steikið ásamt hvítlauknum og belgbaununum þar til mýkist og kryddið vel.
- Bætið þá kjúkling og pylsu aftur í pottinn, tómötum úr dós, vatni og krafti, smakkið til með kryddum og leyfið að malla í um 15 mínútur.
- Kryddið áfram eftir smekk, bætið meiri krafti við ef ykkur finnst þurfa meira bragð og bætið saffrani saman við áður en grjónin fara í pottinn. Gott er að hafa soðið vel kryddað og bragðmikið svo rétturinn verði betri.
- Hellið nú grjónunum saman við og blandið vel, leyfið að malla við vægan hita þar til vökvinn gufar upp að mestu og grjónin mýkjast.
- Þegar grjónin eru tilbúin má raða rækjunum ofan á, saxa smá kóríander og skera niður sítrónu til að kreista yfir.
Paprikan og kryddin gefa Paellunni litinn og ekki spara þegar kemur að kryddunum og verið dugleg að smakka til. Þegar grjónin eru komin í pottinn á helst ekki að hræra neitt. Það kemur stökk himna af hrísgrjónum á botninn sem kallast socarrat og telst vera partur af því að elda Paellu rétt og Lillý segir það sé einmitt besti parturinn. Stingið bara skeið/gaffli í pottinn til að smakka grjónin til og bætið smá meira soði saman við í lokin ef þau eru ekki alveg tilbúin og vökvinn allur gufaður upp.
Njótið vel.