Guðbrandur fletti ofan af skemmdarverkum ragnars þórs

Guðbrandur Einarsson, fyrrverandi formaður Landssambands verslunarmanna og Verslunarmannafélags Suðurnesja, fletti ofan af óheilindum formanns VR þegar hann skýrði frá því í vikunni að Ragnar Þór hefði hafnað kjarasamningi sem hefði fært hinum lægst launuðu í LV um 40% hækkun á samningstímanum. Með þessu má öllum vera ljóst að Ragnar Þór stendur ekki fyrir átökum á vinnumarkaði til að ná fram kjarabótum fyrir launþega heldur vinnur hann að því að valda sem mestum skaða í samfélaginu með því að efna til óþarfa verkfalla.

 

Guðbrandur sagði af sér embættum í kjölfarið. Hann treystir sér ekki til að vinna með því óheilindafólki sem hefur brotist til áhrifa í launþegahreyfingunni nú um stundir. Með hreinskilni sinni hefur Guðbrandur sýnt fram á það sem margan hefur grunað: Ragnar Þór Ingólfsson rekur hatursfulla pólitík sem snýst um að skaða og skemma en ekki að bæta hag launþega. Hann hefur nú sýnt sitt rétta andlit svo ekki verður um villst. Fyrir hreinskilni sína á Guðbrandur Einarsson þakkir skyldar.

 

Fullyrt er að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi hafnað þessu góða boði án þess að bera það undir stjórn VR. Ef það er rétt að Ragnar Þór hafi ekki boðað til formlegs fundar í stjórn VR út af svo risastóru máli sem þriggja ára kjarasamningur er, þá væri um að ræða slík embættisafglöp að honum bæri að víkja umsvifalaust. Mikil reiði er innan stjórnar VR vegna þessa en enginn innan stjórnarinnar hefur enn lagt í að taka forystu gegn formanninum og ofríki hans. Ragnar Þór er orðinn mjög hrokafullur og finnur mjög til valds síns. Hann hagar sér eins og sagt var um menn fyrir hrun: „Á það - má það.“ Þá þykir athyglissýki einkenna framkomu Ragnars um þessar mundir. Hann nærist á því að fá að koma fram í fjölmiðlum sem er mjög hættulegt.

 

Félagsmenn í VR mættu fara að vakna. Í stjórnarkosningum sem lauk fyrir viku reyndist kjörsókn einungis vera 7.88% sem er hreint með ólíkindum. Menn eru allt of værukærir í þessu stóra félagi og því getur Ragnar Þór valsað um nær umboðslaus og valdið miklum skaða.

 

Glöggir menn hafa rýnt stjórn VR eftir að úrslit láu fyrir í síðustu viku. Mönnum sýnist að formaðurinn sé ekki með tryggann meirihluta á bak við sig. Vonandi átta stjórnarmenn í VR sig sem fyrst á ábyrgð sinni og taka ákvarðanir sem megna að koma vitinu fyrir Ragnar Þór Ingólfsson sem virðist nú reka einhverja öfga-vinstri einkapólitík fyrir sjálfan sig. Flestum félögum í VR til skaða og ama.