Það ætlaði allt um koll að keyra við eldhúsborðið þegar María Gomez matar- og lífsstílsbloggari með meiru töfraði fram þessa sælkera grísku flatbrauðspítsu fyrir fjölskylduna á dögunum. María er einstaklega metnaðargjörn þegar kemur að því að elda hollan og góðan mat og þessi ljúfffenga flatbrauðspítsa ber þess sterk merki.
„Þetta er uppskrift af pítsu sem er ekki bara til að hafa föstudags. Þessa myndi ég hafa hvaða dag sem er vikunnar og þess vegna á sunnudegi líka,“segir María og elskar að töfra fram ljúffengar sælkera pítsur fyrir sig og sína á góðum degi. „Heimilisfólkinu fannst hún svo góð eftir frumraunina svo ég var beðin um að gera aftur þessa aftur strax daginn eftir. Hugmyndin kviknaði út frá Spanakopita bökunni sem er í miklu uppáhaldi hér heima.“
Hér kemur uppskriftinni af þessari dásemd.
Grísk flatbrauðspítsa að hætti Maríu
Botninn
270 g fínt spelt frá MUNA
1 tsk. fínt salt
1 msk. hrásykur frá MUNA
1 msk. vínsteinslyftiduft
350 g grísk jógúrt
Álegg
150 g spínat
200 g fetaostakubbur (ekki í olíu ná vatni)
Rifinn Mozzarella eða ferskur mozzarella þið megið ráða (ég notaði rifinn í poka)
1 tsk. sítrónusafi
2 stk. hvítlauksrif
MUNA extra virgin ólífuolía
ferskt rósmarín
MUNA kasjúhnetur
Gróft salt
svartur pipar
Gúrku jógúrtsósa
350 g grísk jógúrt
1 msk. MUNA akasíuhunang
1/2 gúrka
1-2 tsk. gróft salt
pipar eftir smekk
MUNA akasíuhunang til að setja á pítsuna eftir á.
Aðferð:
Botninn
- Setjið þurrefnin saman í skál og hrærið með skeið.
- Bætið næst jógúrtinni út í og hrærið vel saman.
- Setjið svo á borð með spelti ofan á og hnoðið og bætið við spelti eins og þarf þar til deigið hættir að klístrast við fingur og borð.
- Fletjið deigið næst út með kökukefli en það má alveg vera smá þykkt og þarf að passa á pönnu.
- Steikjið báðum megin á stórri grillpönnu eða steikarpönnu þar til það eru komnir brúnir flekkir í það eins og á flatbrauði.
- Færið svo botninn á smjörpappír ofan á bökunarplötu en það má rúlla aftur yfir það hér með kökukefli og kremja það betur út svo það verði þynnra og stærra, ekki hafa áhyggjur ef það er hálfhrátt því það á eftir að fara í ofninn.
- Setjið svo ólífuolíu yfir botninn ásamt hvítlauk sem er skorinn í örþunnar sneiðar og saltið með grófu salti yfir og stráið svo rifnum eða ferskum mozzarella osti í þunni lagi yfir (ekki of mikið).
- Setjið smá Muna ólífuolíu á pönnu og setjið svo spínatið út í heita olíuna og saltið og piprið.
- Þegar spínatið er helmingi minna en það var setjið þá 125-150 g (c.a hálfur kubbur) af fetaostinum ásamt sítrónusafanum út á og látið bráðna rétt svo saman.
- Takið svo af pönnuni og dreifið jafnt ofan á pizzabotninn með olíunni og hvítlauknum og mozzarella ostinum á og dreifið smá meira af köldum fetaosti yfir ásamt ferskum rósmaríngreinum og kasjúhnetum.
- Setjið svo smá meiri ólífuolíu yfir allt saman og stingið í 200 °C heitan ofninn með blæstri í 10-15 mín.
- Berið svo fram með jógúrtsósunni og MUNA akasíuhunangi til að setja ofan á pítsuna en ég lofa það er rosa gott.
Jógúrtsósan
- Meðan pítsan er í ofninum gerið þá sósuna.
- Hrærið jógúrtina upp og setjið salt, pipar og hunang útí ..
- Raspið svo hýðið af hálfri gúrku út í og bara rétt innan við hýðið svo að sósan verði ekki blaut. Hún á að vera þykk.
- Hrærið svo vel saman og geymið í kæli þar til pizzan er til og berið fram með henni.
Verði ykkur að góðu.
Girnilega þessi dásemdar flatbrauðspítsa./Ljósmyndir María Gomez.