Lögfesting kjarasamninga þegar ekki er hægt að ná niðurstöðu með venjulegum hætti með samningum launþegasamtaka og vinnuveitenda þykir algert neyðarúrræði. En slíkt getur orðið niðurstaðan stefni í óefni og engin samningsvilji fyrir hendi. Gerst gæti að ríkisstjórnin grípi inn í og setji lög á deilu Eflingar við Samtök atvinnulífsins þar sem Efling hafnar blákalt sambærilegum samningi og önnur launþegafélög í landinu hafa náð og fengið samþykkta í kosningu félagsmannameð mjög miklum yfirburðum.
Flest bendir til þess að Sólveig Anna Jónsdóttir hafi aldrei haft í hyggju að semja eins og aðrir launþegaformenn. Hún hefur slitið sig frá samstarfi við aðra helstu forvígismenn launþega og fer fram með mun harðari stefnu en þeir. Hún stillir málum þannig upp að engin leið er að ganga til samninga við Eflingu, fjölmennt verkalýðsfélag sem kemur víða við sögu í atvinnulífinu og getur lamað þjóðfélagið ef því er að skipta.
Sólveig Anna er grunuð um að hafa alltaf ætlað sér að fara í verkfallsátök og sýna með því mátt sinn og þess hóps innan Eflingar sem stendur með henni og vill átök. Efast má um að Sólveig Anna og félagar hafi sérstakan áhuga á að bæta kjör félagsmanna Eflingar. Þeim er efst í huga að stokka þjóðfélagið upp og kenna vondu kapítalistunum í Samtökum atvinnulífsins lexíu. Sólveit Anna er í grjótharðri einkapólitík og hún vill kollvarpa atvinnulífinu.
Félagar í Eflingu sem starfa á almenna vinnumarkaðinu eru mikilvægir í störfum á hótelum, veitingastöðum, við akstur, hjá olíufélögum, skipafélögum, í fiskiðnaði og hjá flugfélögum. Með skæruverkföllum gæti Efling lamað ferðaþjónustu á Íslandi sem er nú óðum að komast af stað eftir tvö erfið ár þegar veiruvandinn lamaði allt. Þá gæti Efling stöðvað eldsneytisdreifingu um landið og einnig vöruflutninga um hafnir landsins, bæði innflutning matvara og annars varnings og eins útflutning. Sitthvað annað gæti Efling gert til að lama samfélagið.
Það er vitanlega ekki boðlegt að einn hópur á vinnumarkaði geti skorið sig úr og skemmt fyrir öllum öðrum í þjóðfélaginu, bæði launþegum, fyrirtækjum og ríkisvaldinu. Ef heilar atvinnugreinar stöðvast myndanst ekki tekjur og hið opinbera fær ekki skatta til að standa undir rekstri sístækkandi ríkisbákns.
Við slíkar aðstæður er réttlætanlegt að ríkisstjórn og Alþingi grípi inn í með lagasetningu. Þá væri hægt að lögfesta sambærilegan samning fyrir Eflingu og önnur launþegafélög í landinu hafa gert og sátt virðist ríkja um. Ætla má að ekki yrði mikill ágreiningur um slíkt neyðarúrræði þegar það kæmi til kasta Alþingis. Stjórnmálaflokkar sem settu sig upp á móti því sýndu með því ábyrgðarleysi sem kæmi þeim í koll síðar. Það vita þeir sjálfir og hver hugsar um sig.
Mun það þá koma í hlut Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, að tala fyrir lagasetningu. Hún sem leiðtogi núverandi vinstri stjórnar kæmist ekki undan því þó að vitanlega yrði það ekki neitt óskaverkefni fyrir leiðtoga sósíalista að þurfa að setja lög á verkalýðsfélag. En gera þarf fleira en gott þykir. Þegar blasir við að eitt launþegafélag sker sig úr og sýnir öllum óbilgirni mun það ekki skaða ríkisstjórnina að grípa inn í með málefnalegum rökum sem stjórnarflokkar og stjórnarandstaðan ættu að geta sammælst um. Verkföll geta orðið náðarhöggið fyrir viðkvæmar atvinnugreinar sem eygja nú von eftir erfið ár heimsfaraldurs.
- Ólafur Arnarson.