Grindarbotninn hrjáir þriðjung kvenna

Heilsufarsvandamál sem rekja má til grindarbotnsvöðvans hrá um þriðjung kvenna hér á landi, margar hverjar frá því á unga aldri, að því er fram kom í upplýsandi samtali við Þorgerði Sigurðardóttur sjúkraþjálfara í heilsuþættinum Lífsstíl á Hringbraut í gærkvöld.

Þorgerður hefur yfir 20 ára reynslu af því að meðhöndla konur sem eiga við ýmis konar heilsuvanda að stríða, ekki síst í grindarbotni sem gefur sig oft og tíðum eftir barneignir, en einnig vegna kyrrsetu og ofþyngdar. Afleiðingarnar geta verið þvagleki af litlu sem engu tilefni og þaðan af hvimleiðari erfiðleikar, enda heldur grindarbotnsvöðvinn uppi öllum neðsta hluta skrokksins - og er í reynd einn mikilvægasti vöðvi líkamans sem alltof fáir gefa gaum, eins og Þorgerður víkur að í samtali kvöldsins.

En það er margt hægt að gera til að auka lífsgæðin í þessum efnum, þótt vöðvarnir í botni grindarinnar séu farnir að gefa sig - og þar koma inn æfingar og fræðsla sem Þorgerður og stallsystur hennar hjá Tápi hafa sinnt um langt árabil, en í mörgum tilvikum geta konur öðlast fyrri styrk í grindarbotninum með markvissri þjálfun og leiðbeiningum um breyttan lífsstíl.

Og konur eru hér ekkert eyland, grindarbotnsvandi er nokkur algengur á meðal karla, einkum þeirra sem hafa farið í aðgerð vegna of stórs blöðruhálskirtils, en hvimleiður stingur aftan við pung er tiltölulega algengt vandamál hjá mörgum karlmönnum sem komnir eru um og yfir miðjan aldur. Þorgerður bendir því á að það sé ekki síður karla en kvenna að læra góðar grindarbotnsæfingar, þetta séu jú vöðvarnir sem haldi öllu heila kerfinu uppi dags daglega.

Lífsstíll er endursýndur í dag, annan hvern heila tímann, en einnig er hægt að nálgast hann í heild sinni eða að hluta á hringbraut.is.